22.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Lárus H. Bjarnason:

Eg get ekki láð hv. þingm. Ak. að hann mælir með tillögu sinni, en vona hinsvegar að deildin verði henni ekki fylgjandi.

Eg hefi aldrei sagt að forlög þessa máls væru þegar ákveðin. En eg kom í dag að máli við þingm. Akureyrar og sagði við hann á þá leið, að við skyldum reyna að komast hjá rifrildi um tillöguna, það hefði svo hvort sem er ekkert upp á sig, og fanst mér hann taka vel í það.

Hér getur ekki legið við velsæmi deildarinnar þó að hún samþykki tillögu mína. Tillagan fer að eins fram á að gerðir landstjórnarinnar verði rannsakaðar, engan veginn fram á það að ráðherra verði þegar dæmdur; það væri miklu fremur brot á velsæmi að neita um rannsókn á máli, sem flestir munu víta. Og það getur ekki komið til mála að seta gæzlustjóranna hér í deildinni geti komið að nokkrum baga, sízt á þessu stigi málsins og jafnvel aldrei. Þeir eru aðeins 2 og þó 3. maðurinn væri talinn með ekki heldur; hér eru 13 atkvæðisbærir menn.

Það tjáir heldur ekki að mælast undan rannsókn og úrskurði málsins hér í deildinni. Deildirnar kjósa sinn gæzlustjórann hvor, og því verður hvor deild um sig að skera úr því, hvort hennar gæzlustjóri eigi að halda sæti sínu eða ekki. Neðri deild getur ekki úrskurðað um gæzlustjóra efri deildar.