13.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Ráðherra (B. J.):

Eg býst við að það sé nokkurnveginn árangurslaust fyrir mig og þá sem mér fylgja að tala í þessu máli. Það mun vera eins um þetta mál og annað mál, sem nýlega var til umræðu í Nd., að dómur mun vera uppkveðinn á því fyrirfram. Það er fullsannanlegt, að það er löngu ákveðið að hinn afsetti gæzlustjóri deildarinnar skuli settur inn í stöðu sína aftur. Það var minst á það í ræðu hér fyrir nokkru, og kveðinn upp sá dómur, að lagaheimting væri á innsetningunni, og þetta væri ekkert áhorfsmál. Þá er það ekki sízt ber vottur þess, að úrslit þessa máls séu fyrirfram ákveðin, að formaður þeirrar nefndar, sem um málið hefir fjallað, er þessi yfirframsögumaður allra mála konungkjörna liðsins, og þykist eg vita, að hann hafi samið nefndarálit meiri hlutans, enda er ekki heil brú í því. Það er því bara fyrir siðasakir, að eg stend upp til að tala, og mótmæla þeirri aðferð, að kveða upp dóm í máli, sem ekki er nærri fullrannsakað enn. Því að þá rannsókn, sem ekki er

gerð til annars en að safna saman skröksögum um mig, get eg ekki kallað neina rannsókn. — Það er öllum fullkunnugt, að ástæður til þessarar innsetningar, sem hér er farið fram á, eru engar. Það er þvert á móti kunnugt öllum, að þessir menn, hinir fráviknu gæzlustjórar, hafa brotið af sér allan rétt til að sitja í stjórn Landsbankans. Þeir gerðu þar ekkert gagn, en unnu bankanum þvert á móti mikið tjón. Það var landsnauðsyn að víkja þeim frá, ef bankinn átti ekki að sökkva enn dýpra en komið var. —

Það er öllum kunnugt, að þessir menn, gæzlustjórarnir, hafa játað það sjálfir, að ábyrgðarlausir starfsmenn bankans hafi keypt víxla fyrir nál. 150 þús. kr. þvert ofan í öll lög og reglugerð bankans. Það er sömuleiðis fullkunnugt, að þeir hafa með hirðuleysi sínu, ásamt fyrv. framkvæmdarstjóra, verið þess valdandi, að bankinn hefir tapað, eftir því sem rannsóknarnefndinni hefir talist til, að minsta kosti 400 þús. kr., líklega alt að miljón króna. Það eru framkomnar glöggar upplýsingar um að tapið hljóti að nema minst þessari upphæð. Annar gæzlustjórinn hefir játað að tapið muni nema 1—200 þús. kr. og má geta nærri að hann hefir tiltekið þá allra lægstu upphæð, sem hann gat hugsað sér. Allt þetta er fullsannað, og geta þeir sem rengja fengið að sjá skjöl fyrir því í bankanum. Ennfremur er það fullsannað að hin fráfarna bankastjórn hefir glatað 6 þús. kr. virði í víxlum. Þetta hafa þeir sjálfir kannast við. Enda lágu víxlarnir í opnum blikkkassa í opnu herbergi í bankanum, sem allir gátu gengið um. Auðvitað hafa þeir verið gripnir þaðan af ófrómum mönnum.

Þessu víxlahvarfi hefir fráfarna bankastjórnin kannast við að hafa leynt, með því að láta semja reikning bankans eins og víxlarnir væru vísir. Eg skal ekki fást um þrjózku bankastjórnarinnar við landstjórnina, þegar hún fór fram á að haldin væri í bankanum gerðabók, svo sem lögboðið var. Fyrir hvert eitt um sig af þessum atriðum, er nú eru upptalin, var full ástæða til að víkja bankastjórninni frá. Hvert eitt út af fyrir sig var nægilegt til að sýna það, að þessir menn voru óhæfir til að vera í stjórn Landsbankans. Ef nú þessi deild fer að taka sér dómsvald í þessu máli, sem enn er óútkljáð, og órannsakað, og setur þennan fyrverandi gæzlustjóra inn með valdi, þá hlýtur það að hafa í för með sér stórtjón fyrir Landsbankann.

Hvorki þessi maður né félagi hans hafa þá þekkingu, sem nauðsynleg er til að geta rækt vel þessa stöðu, og auk þess hafa þeir með þrjózku sinni og þverúð við landstjórnina, meðan á rannsókninni stóð, sýnt það, að þeir eru óhæfir til að gegna þessari stöðu. Slíkt tiltæki deildarinnar mundi stórum veikja traust Landsbankans bæði utanlands og innan. Það væri blátt áfram banatilræði við alla réttvísi og réttlæti í landinu, að þröngva þessum manni inn í bankann með valdi. Það situr ekki á efri deild Alþingis að ganga á undan landsmönnum, í því að sýna þrjózku gegn lögunum.

(Lárus H. Bjarnason hlær.)

Hér þýðir ekkert að reka upp fíflahlátur !

Eg endurtek það, að það væri hryllilegt banatilræði við alt réttlæti og réttvísi í landinu, ef á að hamra þessu máli fram hér í deildinni, og það með atkvæðum sjálfra hinna seku manna!

(Lárus H. Bjarnason hafði þegar beðið um orðið, en vék fyrir Kristjáni Jónssyni þm. Borgf.)