08.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

81. mál, erfðafjárskattur

Eiríkur Briem; Það var rétt eins og hv. framsögum. tók fram, að upphæð þessa skatts er mjög há og hærri en hún er í öðrum löndum, en það ber ekki einungis að líta á það, hvað erfðaskattsgjaldið er hátt, heldur og einnig að líta á það, hvort landssjóður hafi gagn af því, að það sé sett svo hátt. Það er oft svo, að há gjöld auka ekki tekjarnar, heldur hið gagnstæða, að þær minka við það. Vér höfum haft eitt dæmi þess hér í Reykjavík ekki alls fyrir löngu. Skip voru hér einu sinni skyldug til að greiða hafnsögugjald, hvort sem þau þurftu að fá sér hafnsögumann hingað inn á höfnina eða ekki. Afleiðingin af því varð sú, að hingað komu miklu færri skip, og hafnsögutekjurnar minkuðu. Þetta ákvæði hafði því gagnstæð áhrif við það, sem því var ætlað. Það er líkt hér um þetta frumvarp, að þegar að erfðaskattsgjaldið er sett svona hátt, þá verður það sterk hvöt til manna til að reyna að komast hjá að greiða það. Eg skal taka dæmi. Segjum t. d. að maður ætti von í 100 þús. kr. arfi hjá frænda sínum, af honum yrði hann að borga hér um bil 40 þús. kr. í erfðafjárskatt. Hann mundi þá hafa sterka hvöt til að fá frænda sinn til að flytja burt og setjast að í öðru landi, þar sem gjaldið er ekki svona hátt. Þetta verður þungt gjald á ríka menn og mundi verða til að fæla þá frá að koma hingað, Menn eru í öðru orðinu að tala um, að það sé eðlilegt, að hér í Reykjavík verði miðstöð fyrir íslenzka verzlun í landinu, en það getur ekki orðið, nema hér verði ríkir menn, og þetta háa erfðafjárgjald mundi freista þeirra ríkra manna, er hér væru, til flytja burt af landinu, til þess að ættingjar þeirra geti fengið að njóta eigna þeirra, sem þeir láta eftir sig. Ennfremur mundi þetta gjald verða til þess að draga úr því, að ríkir menn kæmu hingað og settust hér að. En straumurinn er sterkur í þessa átt, sem frumvarpið fer í, svo að eg ætla mér ekki að reyna neitt að breyta því að þessu leyti eða hefta framgang þess á þinginu. En eg vildi leyfa mér að skjóta því til nefndarinnar, hvort henni fyndist ekki ástæða til að gera breytingu á niðurlagi 7. gr. frumvarpsins. Niðurlagið hljóðar svo:

„Sé endurgreiðslan miðuð við ákveðna áratölu, skal fjárhæðina margfalda með áratölunni, þó aldrei meir en 25 árum“. Eg tek til dæmis, að maður arfleiddi annan að 100 kr. á ári í 25 ár, þá yrði að borga erfðafjárskatt af 2500 kr. Ef hann í þess stað arfleiddi hann að sparisjóðsbók með 1600 kr. í, en segði að hann skyldi taka út 100 kr. á ári, þá mundi bókin geta enzt í 25 ár, en hann borgaði 90 kr. minna í erfðafjárskatt. Þetta nær ekki nokkru lagi. Það mætti í öllu falli færa niður töluna, sem á að margfalda með; 25 ár er altof hátt svo framarlega sem vextir lækka ekki mikið niður úr 4%. Í þessu tilfelli hefði ekki þurft nema að sextánfalda; að 25falda nær út yfir allan mögulegleika, nema gjaldið ætti að vera um allan aldur og eilífa tíð.

Háttv. framsögumaður gat þess, að eg mundi gera athugasemd viðvíkjandi ónákvæmni, sem mér þykir vera í 1. gr. frumvarpsins, en eg get slept því í þetta sinn.