28.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

68. mál, gerðardómur í brunabótamálum

Ráðherra (Kr. J.):

Eg býst við að það verði skipuð nefnd í þetta mál, því að það er að ýmsu leyti athugavert. Vil eg leiða athygli hinnar háttvirtu deildar og væntanlegrar nefndar að einu aðalákvæði frumvarpsins, sem er í 1. grein þess, og fer í þá átt, að skylt skuli vera að leggja ágreining í brunabótakröfumálum undir gerðardóm.

Hér er gjörsamlega farið í bága við það sem frá alda öðli hefir verið í lögum hér á landi, að hver og einn mætti eða gæti snúið sér til dómstólanna, þegar hann vildi eða þyrfti að fá útkljáðan ágreining um réttarspursmál.

Og mikil áherzla hefir jafnan verið lögð á það, að engan mætti draga frá sínu, varnarþingi. En hér er einstökum mönnum eða félögum varnað að leita til dómstólanna til að ná rétti sínum, ef frumv. þetta verður að lögum. — Þetta er svo athugavert, að deildin þarf að íhuga frv. grandgæfilega, enda vænti eg þess, að nefnd verði skipuð til að taka það til meðferðar.