08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í C-deild Alþingistíðinda. (2692)

114. mál, íslensk lög verði eftirleiðis aðeins gefin út á íslensku

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Eg skal ekki fjölyrða um þetta mál, því að það er svo sjálfsagður hlutur, að ekki á að binda mönnum þær byrðar og kostnað að skylda stjórnarráðið til þess að gera þýðingar af íslenzkum lögum á dönsku, eins og ákveðið er í lögum frá 18. Sept. 1891. Því síður eiga menn að láta sér lynda það ákvæði laganna, að þar sem í íslenzkum lögum er verið að tala um eitthvert konungsríki — líklega Danmörku — því nánara stendur það ekki, en að í konungsríkinu eigi öll íslenzk lög að birtast á dönsku. Ef það á að birta íslenzk lög á einhverri erlendri tungu, þá fyndist mér það miklu réttara, að birta þau á einhverju víðlesnara máli, en því sem talað er í þessu »konungsríki« Danmörku. Ef menn vildu fara að þýða íslenzk lög á erlenda tungu, þá ættu menn að þýða þau á þýzku, ensku eða frönsku, eða á einhverja þá tungu, sem inn mentaði heimur skilur, svo að heimurinn geti séð, hvernig íslenzkri löggjöf sé farið.

En hitt er rétt, að menn sjái, að það er þýðingarlaust og óviðfeldið að þýða íslenzk lög á danska tungu, sem enginn skilur nema Danir einir. Því ankannalegra væri það líka, að þýða þau á dönsku, þar sem engin ákvæði eru um það í dönskum lögum, að lög Dana eigi að þýða á íslenzku. Ef það væri ákveðið, að stjórn »konungsríkisins« ætti að birta öll lög ríkisins á íslenzku, þá mætti tala það, því eitt ríkið er ekki rétthærra en hitt.

Hér er því ekki annað fyrir hendi en það, að annað hvort sjái Danir um þýðingu íslenzkra laga á dönsku, eða að við íslendingar leggjum niður þessa greiðvikni. Og þetta ið síðasta tel eg réttast. Það var rétt, sem stjórnin bar fram í þessu máli 1891, að hún taldi það ekki við nein rök að styðjast, að nauðsynlegt væri að þýða íslenzk lög á danska tungu, önnur en þau, að það yrði að þýða þau vegna hæstaréttar. En nú er svo um hæstarétt, að dómarar hans mega byggja á þessum þýðingum, en þó má hnekkja þeim dómi með því að sýna fram á, að þýðingarnar séu ekki réttar. Meðan hæstiréttur fer með íslenzk mál, á meðan hann er æðsti dómstóll landsins, þá er hann líka íslenzkur dómstóll, og þá er ekki til of mikils ætlast, að dómendurnir skilji íslenzku og dæmi ekki eftir þýðingum og jafnvel ekki þótt stjórnin geri þær þýðingar.

Þessi breyting hér fer ekki fram á annað en að 2. gr. þessara laga falli burtu. Býst eg við því, að málið geti gengið hér í gegnum deildina umræðulítið og geti gengið í gegnum báðar deildirnar á þessum dögum, sem eftir eru þingtímans. Býst eg við því að stjórnin og allir þingmenn séu með þessu. Og með góðum vilja og afbrigðum frá þingsköpunum, þá má koma málinu í gegn á þessu þingi.

Vona eg, að allir háttv. þingmenn séu mér samdóma í þessu, að þessi grein eigi að falla niður.