08.08.1913
Neðri deild: 29. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í C-deild Alþingistíðinda. (708)

102. mál, einkaréttur til að vinna salt úr sjó

Benedikt Sveinsson:

Eg og hv. meðflutningsmenn mínir höfum leyft okkur að bera fram þessa tillögu eftir ósk hr. Páls Torfasonar. Kveðst hann hafa uppgötvað nýja og heppilega aðferð til að vinna salt úr sjó, sem ekki hafi verið reynd áður. Hann hyggst geta gert mikið gagn með því að nota þessa aðferð hér, en kveðst ekki sjá sér fært að leggja út í það, nema honum veitist einkaréttur til þess um ákveðið árabil. Mál þetta var lagt fyrir fund Fiskiveiðafélagsins hér síðastliðið vor, en það kom of seint fram — það voru ekki eftir nema örfáir dagar, og mörgu að sinna — svo að fundurinn treysti sér ekki til að ráða því til lykta, en tók þó mjög vel í það. Blaðið Ægir hefir líka getið um þetta og lagt því liðsyrði. Getur blaðið þess, meðal annars, að ekkert virðist mæla á móti því, að veita slíkan einkarétt.

Hr. Páll Torfsson býst við að geta framleitt salt mikið ódýrara en nú er og er fús á að skuldbinda eig til að setja ákveðið hámark verðs, sem sé talsvert lægra en verð á salti er nú.

Þar sem það er alkunnugt, að herra Páll Torfason er áhugamaður mikill um framfaramál landsins og hefir dottið margt gott í hug og komið með margar góðar tillögur — var meðal annars einn af aðalstofnendum Íslandsbanka — þá virðist sjálfsagt af Alþingi að sinna þessari málaleitun hans. Vænti eg því að þessi tillaga fái góðan byr og nái samþykki háttv. deildar.