03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

33. mál, vegir

Einar Jónsson:

Það stendur svo einkennilega á, að eg, sem átti sæti í nefndinni, og var þá þessu máli hlyntur, er nú kominn á þá skoðun, að eg get ekki greitt því atkvæði mitt, af ástæðum þeim sem eg skal nú skýra frá.

Þegar nefndin sat á rökstólunum, þá var mér sagt, að þessi vegur mundi kosta lítið fé — væri aðeins smábreyting á vegastefnu, en í Dalasýslu er eg ókunnugur — hefi aldrei stigið þangað fæti, og treysti því sögusögn kunnugra manna. Eg gekk þá að því, að vera þessu frumvarpi samþykkur. En nú, fyrir nokkrum dögum, kom háttv. flutningsmaður þessa frumvarps hér að borðinu til mín og skaut því að mér, að vegur þessi mundi kosta 70,000 kr. Þetta álít eg góða og gilda ástæðu til þess, að vera á móti frumvarpinu. Eg álít það algerlega rangt, að skýra ókunnugum mönnum svona rangt frá, og get því breytt skoðun minni með góðri samvizku, ekki síst fyrir það, að velferðarnefndin, sem eg heyri kallaða svo, hefir helzt fundið það ráð, að stryka út fjárveitingarnar í 13. gr. síðustu fjárlaga. Auk þess vóru hér í deildinni um daginn feld öll vegalögin, sem þá vóru á ferðinni, en sanngjarnast, að þau fái öll sömu endalok. Að öllu þessu athuguðu, þá er eg einráðinn í því, að greiða atkvæði móti þessu máli.