05.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

89. mál, friðun héra

Karl Finnbogason:

Hv. þm. Strandam. (M. P.) segir, að engin rök hafi verið færð fyrir því, að hjerar sjeu óskaðlegir. Jeg hafði leyft mjer að benda á, að sambúð manna og hjera í öðrum löndum væri sönnun þess, að hjerarnir væru engin skaðræðis dýr og að ekki væri ástæða til þess að óttast, að reynsla manna hjer á landi yrði öðru vísi en annarsstaðar. Ef til vill telja hjerafjendur útlendar sannanir ekki nægar, en þess er að gæta, að íslenskar sannanir fást ekki, fyr en hjerar koma hingað til lands. Maður þarf sem sagt að gefa sjer tíma til þess að telja af sjer óttann. Hv. þm. Strandam. (M. P.) lagði áherslu á það, að danskir fræðimenn telji hjerana skaðlega í Danmörku. En Danmörk er lítið land og nálega öll ræktuð. Það er því mikil ástæða til að hjerarnir sæki á ræktaða landið og spilli því. Ísland er hins vegar stórt land og lítið ræktað, og hygg jeg því, að reynslan yrði hjer önnur, og að íslenskir fræðimenn mundu leggja annan dóm á hjerana en hinir dönsku. Hinn hv. þm. (M. P.) sagði enn fremur, að íslenskir vetrar væru vanalega harðir. Það er satt, og veturnir mundu einmitt aðstoða mennina mjög vel í því, að eyða hjerunum, þegar þeim fjölgaði að mun, svo að engin ástæða er til þess að halda, að þeir yrðu landplága.

Einu sinni var talað um að flytja moskusuxa hingað til lands og veikst Alþingi vel undir það og veitti jafnvel allmikið fje til þess. En nú amast menn við því, að fá hjerana flutta inn ókeypis. Þetta er undarleg samkvæmni. Tæpast verður því þó haldið fram, að moskusuzarnir hefðu ekki getað gjört neinn skaða, því að engin lifandi skepna er til, sem ekki á einn eða annan hátt getur orðið öðrum skepnum að meini. Til þess eru þau óbrotnu rök, að alt, sem hreyfst getur og eitthvað þarf til sín, getur orðið fyrir öðrum og eytt einhverju frá þeim. En hjer gjörist víst enn þá einu sinni gamla sagan, að menn vilja það síst, og meta það minst, sem gefið er af góðum hug. Halda, að það sje ilt eða einskis virði, en best það, sem hæstu verði er virt.