05.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

89. mál, friðun héra

Karl Einarsson:

Jeg álít, að fullar sannanir hafi verið færðar fyrir því, að hjerar sjeu skaðleg dýr. Mjer er það ráðgáta, hvernig nefndarmennirnir í Nd. og skógræktarstjórinn hafa getað mælt fram með frv., þó að þeir játi, að hjerar skemmi skóga, geti valdið uppblástri lands o. s. frv. — Moskusnaut og hjerar eru ólík dýr, enda eru það nú aðrir þingmenn, sem um hjerana fjalla heldur en um moskusnautin á sinni tíð, og sje jeg því ekki að hv. þm. Seyðf. (K. F.) geti unnið þessu frv. neitt gagn með tali sínu um moskusnautin. — Annars vil jeg benda á, að þótt þetta frv. verði ekki samþ., er mönnum samt leyfilegt að flytja inn hjera. Ef einhver hefir löngun til þess, getur hann sjálfsagt fengið einhvern bónda til að taka á móti hjerunum, og jafnvel komið því til leiðar, að þeir verði friðaðir í heilli sveit. Ef slík tilraun hepnaðist vel, þá gæti komið til mála að samþ. slíkt frv. sem þetta. En meðan engin reynsla er fengin, er óhæfilegt að samþ. slík friðunarlög, eftir því sem fyrir liggur um málið.