10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

31. mál, þingsköp Alþingis

Júlíus Havsteen:

Jeg vissi það áður en hv. 5. kgk. (B. Þ.) tók til máls, að hann var mjög hrifinn af því að taka öll völdin af milliþingaforsetunum. Jeg vissi það, að hann vildi láta löggjafarvaldið vera undirtyllu undir framkvæmdarvaldið. Hann má gjarnan hafa þessa skoðun fyrir mjer, en til allrar lukku verður hún ekki ofan á í næstu þingsköpum,

Hvað það snertir, að forsetar hafi felt úr og ekki tekið upp í Alþingistíðindin það, sem þar á að vera, þá skal jeg taka það fram, að mjer fanst það mjög undarlegt, þegar jeg heyrði þetta fyrst. En síðan hefi jeg komist að því, að þetta mun vera út af því, að þegar jeg var forseti fyrir 2 árum, þá reiddist hv. núverandi 5. kgk. (B. Þ.) einu sinni við mig út af atkvæðagreiðslu, og brúkaði hótanir við mig. Þetta gat jeg ekki sjeð ástæðu til að taka upp í Alþingistíðindin, og sannast að segja, finst mjer, að slíkt eigi þar alls ekki heima, og jeg trúi því varla, að hann í alvöru búist við því, að menn setji slíkan þvætting í þingtíðindin.

Hvað það snertir, að ofmikið hafi verið tekið fyrir prófarkalestur þingtíðindanna seinustu, þá skal jeg taka það fram, að þingtíðindin hafa aldrei verið eins löng, Þeir sem vilja veita einar 8 kr. fyrir ritstjórn og prófarkalestur, vita ekki, hversu mikinn tíma það tekur; með því móti fengi maður svo sem 70–80 aura fyrir klukkutíma vinnu, og það er ekki eins mikið og kennararnir við barnaskólann fá. Ef þessi vinna ætti að vera sæmilega borguð, þá þyrfti að borga 8 kr. fyrir prófarkalestur og 2 kr. fyrir ritstjórn, miðað við hverja örk. og það átti það að vera eftir reikningi okkar seinast; að við, sem gáfum út tíðindi sameinaðs þings og efri deildar, B. I. og II, höfum fengið að meðaltali 11 kr. og 39 aura fyrir hverja örk, eru hrein ósannindi. Jeg veit ekki hver hefir búið til yfirlitið, sem stendur í nefndarálitinu, en sá maður, sem það hefir gjört, hefir ekki tekið tillit til þess, að yfirlitið yfir A-deild þingtíðindanna þurfti að lagfæra, og líka varð að lesa prófarkir af því. Annars hefi jeg ekki meira um þetta mál að segja, en af því að á mig hafa verið bornar sakir, þá vildi jeg gjöra þessa persónulegu athugasemd. En jeg vil geta þess, að mjer finst undarlegt, að mjer sje borið á brýn að hafa brotið þingsköpin, og það af þeim manni, sem sjálfur brýtur 38. gr. þingskapanna því nær í hvert einasta sinni, sem hann stendur upp, því að jeg veit ekki til að hann hafi fengið leyfi hjá forseta til þess að lesa upp ræður sinar. Jeg á hjer við háttv. 5. kgk. (B. Þ.)., sem er líka vanur að „brúka blað“.