03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

120. mál, stjórnarskrá

Skúli Thoroddsen:

Hæstv. ráðh. (H. H.) gat þess um konungsúrskurðinn, frá 20. okt. 1913, að þar væri um ákvörðun að ræða, sem þegar væri búið að gera, og sem — að mér skildist — yrði ekki breytt.

Það er mikið rétt, að hér ræðir um ákvörðun, sem þegar hefir gerð verið, þ. e. a. s. að því leyti, að konungur hefir lýst yfir því, að hann hafi hugsað sér að haga þessu þannig, og tilkynt Dönum og Íslendingum þá fyrirætlan sína. En á þetta ber svo að líta, sem hér ræði þá aðeins um tilboð, af konungsins hálfu, svo sem hann segði: »Eg mun staðfesta stjórnarskrárfrumvarpið, en þó með skilyrði, því að jafnframt hefi eg þá hugsað mér að haga svo til, að gefinn sé út konungsúrskurður, er sé þess eðlis, að honum sé ekki breytt, nema uppburður íslenzkra sérmála í ríkisráðinu verði að hætta, vegna ákvæða í sambandslögum er sett kunna að verða«.

Hér ræðir því enn eigi um annað en um einhliða tilboð af konungsins hálfu, og það, hvort það öðlast nokkurntíma gildi, eða aldrei, veltur því auðvitað algerlega á því, hvort alþingi gengur að því eður eigi. — Geri alþingi það ekki, þá fær tilboðið aldrei gildi, hvað oss snertir. — En samþykki alþingi á hinn bóginn frumv., án þess að gera nokkuð annað, þá verður eigi öðru vísi á það mál litið, en svo, að það hafi þá gengið að tilboðinu, og gert þar með bindandi samning.

En þetta, er eg nú síðast nefndi, það er einmitt það, sem vér ætlum ekki að gera, og megum ekki gera. — Að minsta vakir það fyrir mér, að það verði látið koma skýrt fram, að ekki megi skilja samþykt alþingis, að því er til stjórnarskrárfrumvarpsins kemur, á þann hátt, sem það vilji á nokkurn hátt ganga að því, sem boðið er eða farið fram á í opna bréfinu frá 20. okt. 1913.

Eg ætlast því til þess, að ráðherrann fari þess á leit við konung, að fá þessu breytt, og eg verð að vænta þess, að það verði létt verk. Hann mundi segja við konung eitthvað á þessa leið: »Það hefir fráleitt verið vilji yðar hátignar, að draga að nokkru leyti úr réttindum, sem Íslendingar hafa þegar viðurkend fengið, heldur hefir hitt að sjálfsögðu einungis fyrir yður vakað, að aftra því, að hringlað sé með uppburð málanna fram og aftur. — Þessu hafa Íslendingar og ekkert á móti, og í því efni þarf yðar hátign því alls ekkert að óttast«.

Eg get ekki betur séð, en að þetta sé það eitt, sem fyrir konunginum hefir vakað, þ. e.: hann vill, að ákvörðunin, sem gerð er, sé varanleg ákvörðun. Dylst mér því og alls eigi, að hæstv. ráðherra (H. H.) sé aðeins að reyna að hræða menn, er hann lætur sem ákvæði »Opna bréfsins« frá 20. okt. síðastl. hafi alt aðra þýðingu, en þau hafa og geta haft.

Hygg eg svo, að eg hafi svarað því, sem helzt þarf að svara í ræðu hæstv. ráðherra, og skal því ekki eyða fleiri orðum um málið að sinni.