02.09.1915
Neðri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

120. mál, þingsköp Alþingis

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þgskj. 670. Eins og menn muna fjell hjer við 2. umr, brtt., sem fór fram á, að fella burtu þessa síðustu málagrein 32. greinar, því miður. Nú þykir bæði mjer og fleiri þingmönnum varhugavert, að svo skuli vera fyrir mælt, að fjárlaganefndin geti felt allar fjárveitingar; nema 2/3 deildarmanna sjeu sammála um að veita þær. Þetta táknar í rauninni ekki annað en það, að 3 menn af 5, sem skipa eiga nefndina, geta ráðið öllum fjárveitingum í Ed. Jeg efast ekki um það, að þessi tillaga nefndarinnar sje fram borin í góðu skyni, sem sje til þess, að fyrirbyggja hrossakaup, sem því miður eiga sjer of oft stað. En jeg er því miður hræddur um, að þessi tillaga verði einmitt til þess, að auka hrossakaupin, með öðrum orðum, að hrossakaupin verði rekin í enn stærra stíl, til þess að hamla upp á móti fjárlaganefndinni. Tillagan mun því koma í veg fyrir það, sem vakað mun hafa fyrir nefndinni. Þess vegna legg jeg til, að fjárlaganefndin verði skipuð 7 mönnum, eina og verið hefir, því að þar með er fengin meiri trygging fyrir því, að fjárlaganefndin beiti ekki gjörræði. Og í sambandi við það legg jeg til, að öll fjárlaganefndin þurfi að vera á einu máli, til þess að krefjast þurfi 2/3 deildarmanna til að greiða atkvæði. með fjárveitingu, sem fjárlaganefndin hefir lagt á móti. Ef allir í fjárlaganefndinni eru á einu máli, þá er það trygging fyrir því, að flokkshlutdrægni komist ekki að, og þá er hættuminna, að herða á hnútunum og heimta kvalificerað majoritet. Aðalatriðið er að útiloka flokkapólitík í fjárlaganefndinni; og það tekst með þessu. Jeg veit það af reynslu þetta eina þing, sem jeg hefi setið í fjárlaganefnd, að ekkert hefir bólað á slíku, en þeir tímar geta komið, að flokkapólitíkin verði harðvítug og að hætta vofi yfir af þeim völdum. Þess vegna má gjöra ráð fyrir, að gjörðar kunni að verða þær kröfur, sem annaðhvort fjárhagurinn leyfir ekki, eða sem ekki mega komast að. En að sjálfsögðu má gjöra ráð fyrir því, að fjárlaganefndin öll beiti varlega valdi sínu, þegar hún veit, hve þröngt öðrum einstökum þingmönnum er gjört fyrir um fjárbeiðnir sínar. Úr því nú að þessi málsgrein var ekki feld við síðustu umræðu, þá vona jeg, að háttv. deild fallist á að endurbæta hana þannig, eins og jeg nú legg til.

Hv. frsm. meiri hl. (J. M.) tók það fram, að nefndin væri mótfallin þessari tillögu og teldi nægilegt, að fjárlaganefndin væri skipuð 5 mönnum, vegna þess, að fjárlögin væru tvískift og annar kafli þeirra, tekjukaflinn, yrði tekinn til meðferðar í sjerstakri nefnd. Jeg get nú ekki talið það mikið verk, að athuga tekjuhliðina; aðalverkið er gjaldahliðin, og jeg veit það af reynslu, að ekki veitir af 7 mönnum til þess starfs:

Þá er 53. gr. frv. Jeg get fallist á það, að fjarstaddir menn sjeu sektaðir um kaupgjaldið, ef þeir hafa ekki leyfi forseta til fjarvistar, en það kann jeg ekki við, að þingmenn sjeu sektaðir með fjesekt, þótt þeir greiði ekki atkvæði. Viðurlögin eru svo óviðeigandi og smámunaleg, að það er eins og verið væri að reka barn í skammarkrókinn, eða eins og sagt væri við óþekkan krakka: »Þú færð ekki sykurmola, fyrst þú gjörðir þetta«. Og yfir höfuð lít jeg svo á, að ekkert brot sje í því fólgið, þótt einhver hlífi sjer við að greiða atkvæði; þetta getur verið eðlilegt undir vissum kringumstæðum og jafneðlilegt getur verið, að menn tilgreini ekki ástæður. Slíkt og þvílíkt á hver þingmaður að eiga við sína kjósendur, hvort þeir vilja refsa honum fyrir þetta eftir á eða ekki. Fyrir því kýs jeg heldur, að halda gömlu reglunni, sem sje að forseti, ef honum sýnist svo, heimili greinagjörð þingmannsins fyrir því, að hann greiðir ekki atkvæði, eða sleppi honum hjá því ella. Sú regla held jeg að sje frjálslegust. Auðvitað er mjer þetta ekki kappsmál. En hin tillagan er mjer kappamál, að fjárveitingavaldið sje ekki lagt í hendur þriggja manna, eða ef til vill tveggja manna, þegar um fjárlaganefnd Ed. er að ræða.