19.08.1915
Efri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Framsögum. (Magnús Pjetursson) :

Jeg neyðist til að standa upp, þó að jeg hafi ekki ætlað mjer það, og svara háttv. þm. Barðstr. (H. K.), þó hann dáinn sje.

Einhver stakk því að mjer, að hvorugur okkar skildi hinn, og má það satt vera, en þó held jeg, að hann hafi síst skilið sjálfan sig.

Jeg hefi aldrei sagt, að tillag sjúklinganna á Vífilsstöðum hafi verið of lágt, og því síður of hátt; hann vissi ekki, hv. þm., hvort heldur hann hefði sagt, en hitt hefi jeg sagt, að það yrði ekki, ef tillaga okkar nær fram að ganga, hlutfallslega hærra en það var í upphafi, miðað við hvað nú er miklu kostnaðarsamara að halda sjúklinga.

Þegar jeg mintist á tekjur bænda, var sem tekið væri á viðkvæmu kýli, og þaut. háttv. þingm. upp úr sæti sínu. En því fer mjög fjarri, að jeg öfundi þá af tekjuaukanum, enda hefir verið tekjuauki hjá fleirum en bændum einum. Góðærið hefir komið fram við fleiri en framleiðendur eina. Kaup manna hefir hækkað talsvert, og yfirleitt margir notið góðs af.

Annars hefi jeg ekkert frekar um þetta að segja, en mig furðar stórlega á, hversu þetta hefir verið tekið óstint upp af mörgum hjer í háttv. deild.