20.12.1916
Neðri deild: 3. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

7. mál, mæling á túnum og matjurtagörðum

Flutnm. (Sigurður Sigurðsson):

Eins og tekið er fram í aths. við frv., er það flutt að ósk nokkura túnmælingamanna, sem skipaðir eru samkvæmt túnmælingalögunum. Sjerstaklega er það einn maður, Vigfús Guðmundsson frá Engey, sem óskað hefir breytinga álögunum. Hefir hann í brjefi til mín, stungið upp á ýmsum breytingum, og þar á meðal þeim, er frv. hefir að flytja. Nú mun eigi við 1. umr. leyft að ræða einstakar greinar. Þó vil jeg geta þess, að breytingarnar eru aðallega þrjár. Í fyrsta lagi er leyft að stækka mælikvarða ummálsdráttar. Hefir það komið í ljós, að mælikvarðinn, sem lögin tiltaka, hefir reynst helsti smár, er um lítil tún er að ræða. Virðist því ekkert geta verið til fyrirstöðu að veita þetta leyfi, en geta þess á ummálsdrættinum, hvaða mælikvarði er notaður.

Í öðru lagi, kveður frv. skýlaust svo á, að eigi skuli heimta ummálsdrátt af kálgörðum.

Í þriðja lagi er samkvæmt frv. heimilt að jafna mælingakostnaði niður á öll býli, hvort sem metið er til dýrleika eða ekki.

Jeg varð að telja aths. mælingamannanna á rökum bygðar, og hefi því flutt frv. þetta.

Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um frv., og legg það til, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndar. Vona jeg að nefndin sýni mjer þá kurteisi, að tala við mig, áður en hún afgreiðir frv., hvort sem hún vill samþykkja það eða fella.