11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Einar Arnórsson:

Jeg vildi einungis gjöra dálitla fyrirspurn til háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó). Það hefir komið fram brtt. frá honum við 1. gr. frv. að í stað „íslenskir þegnar“ komi „íslenskir borgarar“.

Nú langar mig til að fá að vita, hvað hann meinar með þessum orðum, og hvað sjerstaklega er meint með þeim, þegar um hlutafjelög og önnur fjelög er að ræða, í sambandi við lög nr. 35, 27. september 1901.

Enn fremur langar mig til að spyrja háttv. þm. að því, hvað átt er við með orðatiltækinu „erlend skip“ í brtt. við 2.gr.

Háttv. 2. þm. N. M. (Þorst. J.), tók í nokkuð líkan streng og jeg, þegar hann talaði um hættu þá, sem stafað geti af því að samþykkja þetta frv. Jeg veit ekki hvort menn hafa skilið til fulls það, sem jeg sagði áður í því sambandi. Jeg meinti auðvitað ekki, að það væri brot á alþjóðavenju að leggja toll á vörur, en að það væri það, þegar svona væri farið að um leið, að skila nokkru af tollinum til hjerlendra útvegsmanna, eins og til stendur samkvæmt frv. því, sem nú er, verið að ræða. Jeg býst við að afleiðingin yrði sú, að vjer yrðum tilneyddir að afnema lögin nærri því strax, og þá væri ver farið en heima setið.

Þá er hjer var komið, var röddstudda dagskráin frá 2. þm. N. M. (Þorst. J.), sjá A. 186, borin upp og feld með 12:9 atkvæðum að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu

já:

Pjetur Þórðarson,

Sigurður Sigurðss.,

Sveinn Ólafsson,

Þorleifur Jónsson,

Þorsteinn Jónsson,

Einar Arnórsson,

Gísli Sveinsson,

Hákon Kristóferss.,

Jón Jónsson.

nei:

Magnús Guðmundss.,

Magnús Pjetursson,

Matthías Ólafsson,

Pjetur Jónsson,

Pjetur Ottesen,

Skúli Thoroddsen,

Stefán Stefánsson,

Þórarinn Jónsson,

Bjarni Jónsson,

Björn Stefánsson,

Einar Arnason,

Ólafur Briem.

Ráðherra Björn Kristjánsson og forsætisráðherra Jón Magnússon greiddu ekki atkvæði. Þrír þm. fjarstaddir.