12.01.1917
Neðri deild: 25. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Einar Arnórsson:

Jeg get ekki verið háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sammála um það, að rökstudda dagskráin, sem háttv. 2. þm. N.-M. (Þ. J.) kom með, geti ekki komið til atkvæða, því að þessi dagskrá er annars efnis en hin fyrri, er kom fram við aðra umræðu málsins. Sá er munurinn, að hin dagskráin gekk út á að fela stjórninni að búa málið undir næsta þing, en þessi leggur til að málinu verði frestað til næsta þings. (Bjarni Jónsson: Á stjórnin þá ekki að undirbúa málið?). Auk þess hefði þm. hæglega getað komið með munnlega tillögu um að vísa málinu til stjórnarinnar, og væri það þó naumast brot á þingsköpunum.

Það er eitt atriði í þessu máli, sem jeg minnist ekki að hafi verið hreyft neitt. Hverjum mundu verðlaunin verða til góðs ? Síldarmönnunum íslensku, býst jeg við að menn mundu svara. En jeg vil segja, að þau hlotnuðust ekki síldarmönnum alment. Hinir stærri útgjörðarmenn kaupa að öllum jafnaði meiri hluta síldarinnar af hinum smærri, og flytja sjálfir síldina út, eða þá selja þeir Norðmönnum hana, og yrðu það því mestmegnis hinir stærri útgjörðarmenn, auðmennirnir, sem hlunnindanna nytu. Þeir eru fjölda margir, sem stunda síldveiði á mótorbátum — og þeir eru hinir smáu útgjörðarmennirnir — og síðan selja stóru útgjörðarmönnunum allan afla sinn, en þeir flytja svo alt til útlanda. Nú leika engin tvímæli á því, að þeir einir, sem út flytja síld, geta fengið þessi verðlaun, með öðrum orðum, hinir fjesterkari. Það mætti ef til vill segja, að þetta hefði nokkur áhrif á verðið, sem smærri útgjörðarmennirnir fá hjá hinum stærri, og er það væntanlega rjett, að það kunni að hafa nokkur áhrif. En naumast trúi jeg því, að hinir smærri útgjörðarmenn nytu þar fyllilega rjettar síns. Er það ekki venjulegt í viðskiftum, .að síldarkaupmenn hugsi sem svo: Jeg kaupi síld; síld er „spekulationsvara“, sem þæglega getur fallið í verði; jeg verð að gæta þess, að hafa tryggingu fyrir að tapa ekki á þessum kaupum; get því ekki borgað seljanda öll verðlaunin, sem honum bera að rjettu lagi ? (Skúli Thoroddsen: Sambandið milli hinna smærri og stærri útgjörðarmanna þarf ekki að raskast fyrir það). Það getur vel raskast, og er mjög sennilegt, að það gjöri það. (Pjetur Ottesen: Kaupendur færu að „spekúlera“ í því). Já, þeir færu að „spekúlera“ í því! Þeir leggja áreiðanlega dálítið meira á en sem svarar tollinum, og ekki er jeg í vafa um, að þessi verðlaun koma ekki öllum jafnt til góðs, þeim er veiðarnar stunda.

Jeg hefi áður talað í þessu máli í sambandi við þessi 2 frv., um þá varúð, sem hafa þarf við samþykt þessara laga. Býst jeg ekki við, að mínu máli verði gaumur gefinn, og til þess gjöri jeg ekki kröfur, en þó þykist jeg nú sjá, að tvær grímur sje farnar að renna á menn, hvort samþykja skuli eða eigi, og þykir mjer það ekki að undra, því satt að segja get jeg ekki sjeð, að mikið sje í húfi, þótt þessi tvö mál verði ekki afgreidd á þessu þingi. Það sýnist ekki skaða, þótt málið væri rækilega athugað og undirbúið af stjórninni til næsta þings.

Ef næsta þing gjörir einhverjar ráðstafanir, svipaðar þeim, sem hjer eru í bruggi, get jeg ekki annað sjeð, en að þær gætu komið nógu snemma. Það hefir verið sagt, að deildin hefði samþykt frv. um óhæfilega háan toll á síld, og að þetta verðlaunafrv. hafi átt að bæta úr því, og megi ekki samþ. tollfrv. nema þetta fylgi með. En jeg held, að þetta sje firra, því að á næsta þingi má bæta úr þessu áður en farið yrði að flytja út síld og því áður en tolllögin væru tekin að verka. En sannast að segja, var það aldrei mín meining, að neitt hættulegt væri við útflutningsgjaldsfrv. Eftir minni meiningu, kemur hættan fyrst með þessu frv., því að með því er sýnt, að gjöra á upp á milli Íslendinga og annarra þjóða. Frv. tvö í sameiningu álít jeg afar varhugaverð.

Jeg kýs helst að hvorugt frv. verði samþykt frá þessu þingi, sjerstaklega þar sem nú er komið að þinglausnum, og því ekki tími til að athuga málin rækilega frá byrjun. Ef slíkt væri gjört, skal jeg ekki trúa öðru en þá lausn mætti finna, sem öllum líkaði, þar til næsta þing kemur saman. Þótt nú brtt., sem ákvæði, hvernig úthluta skyldi þessum verðlaunum, kæmi fram, sú er við mætti una og yrði samþykt, get jeg þó ekki greitt þessu frv. atkvæði, því þótt slík breytingartillaga kæmi fram, þá breytti hún ekki principi málsins, sem er jafn óbrúklegt fyrir því.