12.01.1917
Efri deild: 20. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

47. mál, bann við sölu og leigu skipa úr landi

Halldór Steinsson:

Jeg vil að eins gjöra örstutta athugasemd í tilefni af ræðu hv. þm. Ísf. (M. T.).

Hv. þm. furðaði á því, að jeg skyldi vera með bannlögunum. En því er nú svo varið, að þótt jeg sje yfirleitt ekki með þvingandi bannlögum, þá er jeg með þessu frv., af því að jeg lít svo á, sem þetta frv. sje eins og hverjar aðrar nauðsynlegar stríðsráðstafanir.

Þá var sami hv. þm. (M. T.) að bera þetta saman við fiskiveiðasamþyktirnar. En það er ekki rjett. Þær voru um alt annað og ólíkt efni, og á alt öðrum tíma. Þær eru því með öllu ósambærilegar.

Um gömlu skipin, sem hv. þm. hafa verið að tala um, sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða. Þótt ekki megi selja þau utan, þá væri ekki óhugsandi, að þau mætti selja innanlands, enda stjórninni gefin heimild til undanþágu.

Hv. þm. Ak. (M. K.) furðaði á taugaóstyrk manna í þessu máli. Ef taugaóstyrkur sá, er hann talar um, á að vera fólginn í því, að við viljum nú, sökum ófriðarins, gjöra frekari ráðstafanir en ella hefði verið, þá get jeg fyrir mitt leyti felt mig við að vera kallaður taugaóstyrkur.

Sami hv. þm. (M. K.) var að tala um, að í þessu frv. feldist vantraust til útgjörðarmanna. En svo er alls ekki, þótt ráðstafanir, sem snerta heill lands og þjóðar, kunni að einhverju leyti að fara í bág við hag einstaklingsins, þá er það fjarstæða, að tala um, að slíkt sje vantraustsyfirlýsing á nokkra stjett.