22.08.1917
Efri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

64. mál, tollalög

Halldór Steinsson:

Jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara. Eins og jeg hefi áður tekið fram hjer í háttv. deild þá er jeg mótfallinn því, að hækkaðir sjeu skattar og tollar á þessum tímum, þegar gjöld öll á þjóðinni eru meira en nógu há, þótt ekki sje á þau bætt.

Það má ef til vill segja, að vörur þær, sem hjer er um að ræða, geti ekki talist til nauðsynjavara. En þó er það gefinn hlutur, að t. d. tóbakið hefir verið, er og verður keypt og notað sem hver önnur nauðsynjavara. Slíkt er eðlilegt, því að allir vita, að gamlir tóbaksmenn eiga miklu hægra með að neita sjer um mörg önnur þægindi, og jafnvel nauðsynjar, heldur en tóbakið. Menn venjast við það á líkan hátt og ýmiskonar lyf, og getur svo farið, ef því er snögglega kipt burt, að maðurinn verði sjálfum sjer ónógur og jafnvel sjúkur, ef mikið hefir kveðið að nautninni.

Jeg mundi þó hafa verið með frv. þessu, ef jeg hefði sjeð f'ram á, að það myndi draga úr tóbaksnautninni, sem auðvitað er helst til mikið hjer á landi. En þeim tilgangi getur frv. ekki náð, því að tóbaksnautn er ekki frekar hægt að minka með tollhækkun en áfengisnautn. Mjer er kunnugt um það, af læknisreynslu minni, að menn eiga hægara með að neita sjer um áfengi en tóbak.

Það mundi því alls ekki minka eyðsluna, þótt frv. yrði samþ.

Aftur á móti mundi það auka freistinguna til tollsvika, og gæti þá svo farið, að tekjuaukinn yrði ekki eins þungur á metunum og til er ætlast.

Auk þess tel jeg það mjög varhugavert að auka freistinguna til tollsvika í landi, sem er tollgæslulaust.

Að vísa hafa tollsvik verið lítil hjer enn þá sem komið er, og stafar það af því, að þjóðin er í eðli sínu löghlýðin. En öllu má ofbjóða, og eins löghlýðni manna sem öðru, með því að gera mönnum altof erfitt og jafnvel ókleift að fá þá vöru, sem þeir telja sig ekki geta án verið.

Jeg get því ekki verið með frv. þessu, og er það sjerstaklega vegna tóbakstollsins. Jeg hefði frekar getað sætt mig við tollhækkun á öli, brjóstsykri og konfekt, því að vitanlegt er, að menn geta neitað sjer um þær vörutegundir, án þess að taka nærri sjer.