06.07.1917
Efri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

29. mál, skipun bjargráðanefndar

Eggert Pálsson:

Jeg hafði ekki búist við, að langar umræður yrðu um þessa þingsályktunartillögu. Jeg taldi víst, að allir háttv. þm. mundu vera samdóma um, að nauðsyn bæri til að skipa nefnd þá, sem hjer er farið fram á. Jeg hjelt það, að þótt þessi nefnd yrði skipuð, þá mundi hún ekki gefa ástæðu til að ræða afstöðu flokkanna hvers til annars árið 1915, eða lengra aftur í tímann, því að það getur naumast talist nein bjargráðaráðstöfun.

Jeg býst nú við, að hver flokkur fyrir sig hafi þóst gera það, sem honum þótti skynsamlegast; að minsta kosti er jeg ekki enn komin á þá skoðun, að flokkur sá, er jeg tilheyri, hafi gert rangt í framkomu sinni um kornvörukaupatillöguna árið 1915. Jeg man eftir, að þessi till. um að birgja landið að kornvörum kom fram, og jeg mun, eins og flokkur sá, er jeg fylgi, hafa verið á móti tillögunni, og það meðfram fyrir þá orsök, er háttv. þm. Ak. (M. K.) tók fram.

Jeg leit svo á, að við hefðum gert nægilega tryggingu fyrir kornvöruaðflutningi í það sinn, með því að skipa nefnd, stjórninni til aðstoðar. Hins vegar leit jeg og lít svo á, að þótt sú stefna hefði verið fastákveðin af þinginu 1915 að kaupa kornvöru, þá hefði stjórnin ekki getað birgt landið nema til næsta árs. Því að þótt tillagan, sem þá kom fram, hefði verið samþykt, þá hefði kornvaran verið upp etin strax og vandræðin byrjuðu, nema þá að horfið hefði verið að því ráði að láta hana liggja ónotaða, hverju sem fram yndi, árum saman eða alt til þessa dags, sem ekki hefði getað reiknast neinn búhnykkur, því að ef hún hefði verið geymd svo lengi, þá væri hún að líkindum farin að skemmast eigi allítið á þessum 2 ára tíma.

Jeg er sömu skoðunar og háttv. þm. Ak. (M. K.), að það sje miklum erilðleikum bundið að geyma matvöru hjer á Suðurlandi til langframa. Jeg þykist sannfærður um það, að þótt hjer sje gert alt, sem unt er, til þess að gera hús sem rakaminst, þá tekst það alls ekki til fullnustu.

Jeg er sannfærður um það, að matvara, sem geymd er í háum stöflum, jafnvel þótt í góðum húsakynnum sje, getur ekki hjer á Suðurlandi lengi haldist óskemd í neðstu pokunum. Jeg hygg því ekki heppilegt að birgja landið til margra ára á þennan hátt, því að liggi kornvaran lengi, er mjög hætt við því, að hún skemmist meira eða minna. Og við því megum við ekki fremur en hana vanti.

Rjettast tel jeg að flytja svo mikið af kornvöru sem unt er til landsins, og leyfa einstökum mönnum og sveitarfjelögunum að birgja sig upp eftir föngum, og það til fleiri ára, ef þeir sjálfir óska. Því að þá er þó matvaran til í landinu, sem grípa má til, ef matmælaskort ber að höndum hjá einhverjum einstaklingum eða á einum stað frekar en öðrum. Og þótt vörur þær sjeu í höndum einstakra manna eða sveitarfjelaga, þá er engin ástæða til þess að óttast hungursneyð hjá þeim, sem ekkert eða minna hafa, því að hinir betur settu geta þá miðlað þeim, ef ekki af fúsum og frjálsum vilja, þá eftir valdboði.

En það, sem mestu varðar, er það, að nóg sje til í landinu af kolum og salti, því að ef það er til, þá er hægt að afla gnægð matar úr sjónum, sem talinn hefir verið því nær óþrjótandi nægtabúr hjer við land, og þá vofir engin hungursneyð yfir þjóðinni. Og kolin er hægt að geyma; þau skemmast ekki og þau þurfa ekki húsrúms með. Að þessarar vöru hefir ekki verið aflað svo sem skyldi, er yfirsjón, sem íbúa landsins hefir hent. Jeg vil ekki kasta þar steini að neinum sjerstökum fyrir þær sakir, því að jeg tel ekki rjett að kenna það einum fremur en öðrum. Skip hafa verið skotin niður og fleiri þvílík óhöpp komið fyrir, sem enginn ræður yfir. En á þetta verður að leggja aðaláhersluna, að afla kola og salts, og yfir höfuð þess, sem framleiðslan þarfnast, því að ef framleiðslutækin eru góð, þá má vænta þess, að við þurfum alls ekki að svelta og höfum meira að segja afgang til að versla með, og getum fyrir hann keypt bæði kornvöru og annað, sem með þarf, eftir því sem hægt verður í það að ná.

Jeg vænti þess, að allir háttv. þm. verði samdóma um að skipa þessa nefnd, sem hjer er lagt til að verði kosin.