09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (2521)

36. mál, verðhækkunartollur

Matthías Ólafsson:

Meðhaldsmenn þessa frv. halda því fram, að sjálfsagt sje að afnema ullarverðhækkunartollinn vegna þess, að ullin sje seld áður en lögin frá í vetur eru útrunnin. (G. Sv.: Misskilningur!). Jeg verð að segja svo mikið, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) gerir sjer alt far um að afnema verðhækkunartoll á landbúnaðarafurðum á kostnað sjávarútvegsins. Þetta frv. hans er því í fullu samræmi við framkomu hans í vetur, þegar hann, eftir að hafa, ásamt öðrum, felt frv. um verðlaun fyrir útflutta síld, gerði sjer alt far um, að pína í gegn afarháan síldartoll, sem þá aðallega átti að koma niður á Íslendingum, engu síður en útlendingum. Þetta er einnig í fullu samræmi við þá fullyrðingu hans, að jeg standi alt af upp og haldi fram sjávarútvegi, ef minst sje á landbúnað. Þetta er algerlega rangt jeg hefi aldrei reynt að halda fram sjávarútvegi á kostnað landbúnaðar.

Það hefir verið sagt, að þetta gjald, sem hjer er um að ræða, muni landssjóð ekki miklu, en gjaldendurna munar þá heldur ekki mikið um það. Jeg verð að segja, að mjer finst kostnaður ekki hafa aukist svo mjög, að þörf sje á slíkri ívilnun við bændur. Verkfæri eru ekki stórum dýrari en áður. (S. S.: 100—150%). Hvað eru það margar krónur á hvert bú? Jeg get nú fengið ljá, sem áður kostaði 1 kr., á 1,50, eða í mesta lagi á 2 kr., og það koma þó aldrei mjög margir ljáir á hvert bú. Jeg hefi ekki lært neina áburðarfræði, eins og hv. sessunautur minn (S. S.), en jeg þekki þó til landbúnaðar yfirleitt. Nú er alt, sem til útgerðar þarf orðið svo afardýrt, að óvíst er, að hún geti borið sig. (G. Sv.: Útgerðarmenn hafa líka ausið upp fje undanfarin ár). Það er rjett, en ef bændur hefðu lagt jafnmargar miljónir í að bæta atvinnuveg sinn, væru þeir líka færari um að bera byrðar nú. Að vísu vorkenni jeg bændum að hafa ekki átt jafngreiðan aðgang að fje og útgerðarmenn, en hefðu þeir haft dugnað á við þá, stæðu þeir ekki illa að vígi nú.

Jeg væri til með að ganga inn á, að lágmarkið væri hækkað, en alls ekki að afnema verðhækkunartollinn. Jeg býst við að koma fram með frv. um að framlengja lögin.