09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2525)

36. mál, verðhækkunartollur

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg vil geta þess, að vegna anna, í stjórnarráðinu hefir stjórnin ekki haft tíma til að ákveða, hvort hún ætti að leggja til, að verðhækkunartollslögin yrðu látin standa eða ekki, eða þeim yrði ef til vill breytt. En jeg vil leyfa mjer að benda hv. þingmönnum á, hvort þeim líst fjárhagur landsins svo nú, að landssjóður megi við því að missa verðhækkunartollinn. Það er sýnilegt, að ef lögin ganga úr gildi 17. sept. næstkomandi, fer allur tollur af gærum, kjöti og síld forgörðum. Jeg sje ekki betur en að þingið verði þá að grípa til annara tollráða, ef lögin eru numin úr gildi og ekki á að leggja á stórkostlega skatta. Af því að stjórnin hefir ekki tekið ákveðna afstöðu til málsins, finst mjer rjettara að setja málið í svip í nefnd; það má þá hraða því með afbrigðum frá þingsköpum, þegar menn eru búnir að átta sig á því. Mjer finst það skylda mín sem fjármálaráðherra að benda á, að landið má ekki við því að missa þessar tekjur. Líklega verða þó tekjur af sjávarafurðum hvort sem er miklu lægri en áður.

Það er vitanlega til ein leið til að fá tekjur í svipinn og það er að taka lán, ef það fæst. Jeg býst við, að landið yrði í ekki litlum tekjuhalla í stríðslok, ef það lægi t. d. með ársbirgðir af dýrum vörum. Það er því í mörg horn að líta með tekjur landssjóðs. Jeg vildi annars víkja þeirri athugasemd að hv. flutningsmönnum þessa frv., að þótt lögin gangi úr gildi 17. sept., er ekki loku skotið fyrir að ná tolli af ullinni, enda þótt ullin færi ekki út, en yrði keypt upp og geymd. Það mætti t. d. setja ákvæði um, að þegar ullin yrði flutt út, skyldi greiða toll af öllu því af vörunni, sem framleitt væri í ár.