12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2535)

36. mál, verðhækkunartollur

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Þessu máli var eftir mikið stapp við 1. umr. vísað til fjárhagsnefndar, og sú nefnd hefir nú komist að þeirri niðurstöðu, sem flutningsmennirnir áður töldu sanngjarna og rjetta, sem sje að nema burt verðhækkunartoll á ull, eins og þetta frv. fer fram á, og nefndin taldi, að ekki mætti seinna vera, að þetta næði fram að ganga. Hv. þingdeildarmenn geta sjeð á nál., að nefndin gat í raun og veru ekki gert meira en þetta, því að henni vanst ekki tími til að taka neina ákvörðun um verðhækkunartollslögin í heild sinni, og hvort þau ættu að haldast áfram, en hún hefir samt ákveðið að athuga það mál sem fyrst. Reyndar er dagur til stefnu, því að varla verður því haldið fram í alvöru, að brýn nauðsyn sje á að afnema öll lögin strax, þótt ullartollurinn sje afnuminn, þar sem þau eiga ekki að falla í gildi fyr en 17. september. Að vísu er hjer fram komin brtt. hv. þm. Dala. (B. J.), og er það alleinkennileg brtt., þar sem hún fer fram á að nema úr gildi öll lögin. Jeg hjelt satt að segja, að hv. þm. mundi hætta við að koma með þessa brtt, þar sem málið var komið til fjárhagsnefndar og hún hefir lýst því yfir, að hún myndi athuga öll lögin í heild sinni. Jeg vil því mælast til, að hv. þm. Dala. (B. J.) taki þessa brtt. sína aftur, en ef hann er ófáanlegur til þess, verður nefndin að mæla á móti því, að brtt. verði látin ganga fram. Ullin er þegar komin á markaðinn og verið að semja um verðið, en svo er ekki ástatt um neinar aðrar afurðir, að minsta kosti alls ekki um aðrar landbúnaðarafurðir, því að þær koma ekki til útflutnings fyr en á haustin, og gangi lögin sjálfkrafa úr gildi, falla þær afurðir, svo sem gærur og kjöt, alls ekki undir þau. Útflutningur á hrossum kemur ekki til mála í sumar, og þarf því ekkert ákvæði um þau sjer í lagi. Ullina er sjerstaklega illa ástatt með, því að kostnaður við sveitabúskap er nú mikill, og verð ullar mjög svo lágt í samanburði við þann kostnað, en bændur verða að selja hana til að fá eitthvað úr kaupstaðnum til að borða. Hvað sjávarafurðirnar snertir verða víst miklar hömlur á þeim atvinnuvegi í sumar. Þó er hugsanlegt og ekki ólíklegt, að ýmsar vörur, t. d. fiskur og síld, falli undir þessi lög. Það væri þá spursmál, hvort ætti að afnema þau vegna fiskjar og síldar. Jeg er á móti því. Af fiskinum er þegar búið að selja afarmikið til „spekulanta“, eins og kunnugt er og kom fram við 1. umr. Jeg hefi heyrt, og efast ekki um að það sje satt, að 2—3 menn hafi þegar látið greipar sópa um rjett allan fisk um öll Suðurnes. Verðið, sem þeir hafa gefið fyrir hann, er tiltölulega lágt, svo að þeir hljóta að græða, hvernig sem veltur. Þótt tollurinn sje afnuminn, rennur hann þó ekki í vasa framleiðenda, heldur „spekulantanna“. Hvað síldina snertir mun alt vera á huldu og reiki með þann atvinnuveg, en það er aðgætandi, að sá atvinnuvegur mun varla rekinn nema vissa sje um allmikinn hagnað í aðra hönd, og þolir hann því engan samanburð við ullina.

Jeg verð því að ráða hv. deild til að samþykkja frv. óbreytt og hraða því sem mest, eins og fjárhagsnefnd hefir lagt til, en jafnframt fella brtt. á þgskj. 51., ef hún verður ekki tekin aftur.