14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (2553)

36. mál, verðhækkunartollur

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg hugði, að eigi mundi álitin þörf á frekari umr. um þetta mál. Mjer virtist hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) geta látið sjer nægja þá staðlausu stafi, er hann hafði áður haft um málið, við fyrri umræður. En hann heldur uppteknum hætti og mun sjálfsagt halda áfram að velta sjer yfir það, sem hjer er fram flutt í deildinni af hálfu landbúnaðarins. Hann leyfði sjer að lýsa það rangt, að búið væri að tvítolla ullina. (M. Ó.: Það er rangt!) Er síst að furða, þótt hann segi þetta, er hann ber það fram hjer í deildinni, að ekkert sje búið að selja af fiski til „spekulanta“, þótt hver heilvita maður viti, að mestallan fisk á Suðurnesjum og víðar er þegar búið að selja, að vanda. Með þessu hefir hann sýnt, að hann fer annaðhvort vísvitandi með rangt mál, eða þekkir ekki það, sem hann stöðu sinnar vegna á að þekkja og þykist þekkja. Sje svo, þá furðar mig ekki, þótt hann sje gersamlega óvitandi um alt það, er hann á ekki beint að fást við.

Hinn hv. þm. hlýtur að vita, að 1915 var ullin ekki flutt út að neinu ráði fyr en búið var að leggja á hana útflutningstollinn. Og væntanlega veit þessi hv. þm., að tollurinn er ekki tekinn fyr en um leið og flutt er út.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að deila út af illgjarnlegum ummælum hins hv. þm. í garð fulltrúa landbúnaðarins. Þar ber alt að sama brunni, og jeg vænti þess, að sama mark verði tekið á orðum hans í því efni og áður.