18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

7. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Hákon Kristófersson:

Jeg get ekki verið háttv. nefnd alveg sammála, sjerstaklega þar sem hún gerir ráð fyrir 1 kr. í ferðakostnað fyrir 10 km. eða minna á landi og 5 km. á sjó. Jeg held, að allir sjái, að þetta sje svo lítil borgun, að betra sje, að hún sje engin, og að þetta sje skyldukvöð, er hvíli á hreppstjórum, með tilliti til þess, að aðrar aukatekjur þeirra verði, ef frv. þetta nær fram að ganga, að mun meiri en verið hefir. Jeg get líka betur fallist á 7. gr., eins og hún kom frá stjórninni, en lækkunina úr 25 kr. niður í 16 kr., þó að jeg geti, að sjálfsögðu, fallist á, að það sje mjög sómasamleg borgun að fá 16 kr., en þau tilfelli munu verða mjög fá. Jeg býst við, að háttv. nefnd sje það vitanlegt, að flest uppboð, er hreppstjórar halda, eru undir 100 kr., og þurfa þeir oft að fara alllangan veg til þess að framkvæma þau. Jeg sje og, að nefndin hefir ekki gert brtt. um flokkun launanna eða niðurröðun, og virðist mjer, að því hefði mátt koma betur fyrir. Eftir minni þekkingu lít jeg svo á, að þótt íbúafjöldi sje lítill í einum hreppi, þá getur staðháttum þar verið svo háttað, að hreppstjórn þar verði að mun erfiðari en í hinum fólksmörgu, því að íbúatala hreppa fer ekki æfinlega eftir því, hve víðlendir þeir eru; þar af leiðandi er ekki víst, að sanngjarnasti mælikvarðinn sje að miða kaupið við íbúafjölda hreppanna. Bjóst jeg því við, að háttv. nefnd mundi færa þetta eitthvað til, lækka í fyrsta flokki, en hækka í öðrum og þriðja. Að háttv. nefnd hefir enga breytingu gert á flokkaskipuninni á laununum kemur eflaust af því, að hún lítur á það atriði málsins eins og hæstv. stjórn, og tel jeg hana ekki sjerlega ámælisverða fyrir það, því að sjálfsögðu mun hún hafa athugað þetta atriði frv., og þá komist á þá niðurstöðu, að ekkert væri við það að athuga.