06.08.1917
Efri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í C-deild Alþingistíðinda. (2945)

73. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Halldór Steinsson:

Jeg gat þess við 1. umræðu þessa máls, að breyting á lögum frá 1907, um skipun læknishjeraða, hefði átt erfitt uppdráttar á þingi Mjer komu þess vegna ekki á óvart aðgerðir allsherjarnefndar gagnvart frv. því, er jeg hafði gerst flutningsmaður að hjer í deildinni, með því líka að mjer var kunnugt um, að hv. Nd. hafði áður stútað tveim samskonar frv., og hefir eflaust ætlað þessu sömu forlög. En þar sem jeg fylgi nú þessu frv. í þriðja sinn til grafar, álít jeg ekki óviðeigandi að mæla nokkrum orðum yfir moldum þess.

Jeg ljet þess getið við 1. umr. málsins, að bæði tímar og ástæður hefðu breyst mjög hjer á landi síðustu 10 árin, að því er til þessa máls kemur. Mörg lög, sem voru góð og gild fyrir 10 árum, eru nú orðin með öllu óviðunandi. Það er þess vegna eðlilegt, að læknaskipunarlögin sjeu að mörgu leyti orðin á eftir tímanum og þurfi endurskoðunar við. En þegar til endurskoðunar og breytinga kemur á þeim, er það einkum tvent, sem þarf að taka til greina. Það eru staðhættir, víðátta læknishjeraðanna og fólksfjöldi. Staðhættirnir breytast nú að vísu ekki, en fólksfjöldinn hefir mjög breyst síðustu 10 árin, og er sífeldum breytingum háður.

Aðalástæðan, sem fram hefir komið gegn breytingu læknaskipunarlaganna, er sú, að læknarnir þyrftu að hafa nægar tekjur til þess að lifa á; þess vegna mætti ekki minka læknahjeruðin um of. En þessa ástæðu má og á að upphefja, með því að bæta á annan hátt úr tekjumissi þeim, sem læknar kynnu að verða fyrir, vegna breytinga á lögunum, svo að þeim verði fært að draga sómasamlega fram lífið. Hjer á landi eru víða blettir, þar sem ókleift er að ná til læknis á vetrum. Hvers eiga þeir að gjalda? Er nokkurt rjettlæti í því, að íbúar slíkra staða verði sjálfdauðir vegna þess, að þeir eru afskektir? Þeir greiða þó fje í landssjóð til launa, eins og hinir, sem læknana hafa. Og jeg álít, að það geti ekki talist menningarmerki að tíma ekki að leggja fje til þess að vernda líf og heilsu manna. En svo er því þó farið hjer á landi. Þó að þjóðinni þyki vafalaust vænst um læknana allra embættismanna sinna, þá er samt farið verst með þá. Þeir hafa svolítil laun, að þeir geta ekki lifað nema í fjölmennustu og víðáttumestu hjeruðunum, þar sem þeir verða að strita eins og húðarklárar, meðan þeir geta staðið. En svo að jeg víki aftur að læknafjölguninni, þá finst mjer ekki sæmandi, og ekki heldur rjett, að láta fólk hrópa ár eftir ár eftir lækni, án þess að því sje veitt áheyrn. Hjer hagar öðruvísi til en erlendis, bæði um staðháttu og fólksfjölda, og fyrirkomulagið á skipun læknishjeraða má því ekki miða við erlent fyrirkomulag í þeim efnum.

Til skams tíma hefir verið læknafæð hjer á landi. En þó að kynlegt megi virðast, þegar gætt er þeirra vesaldarkjara, sem læknar eiga við að búa, hefir læknanemum fjölgað svo síðastliðin ár hjer við Háskólann, að líkur eru til, að fjöldi lækna verði bráðlega embættislausir, að sínu leyti eins og lögfræðingarnir. En læknarnir eru þó að því leyti ver settir en lögfræðingarnir, að þeir hafa ekki neinn læknisfræðilegan yfirdóm til þess að lifa á. Hvað eiga þá þessir menn að gera? Annaðhvort verða þeir að hröklast af landi burt, og það álít jeg best fyrir þá, eða þeir verða að setjast að í grend við hjeraðslæknana og stunda lækningar upp á eigin spítur. En afleiðingarnar af því mundu verða þær, að hjeraðslæknar yrðu að fá launabætur, eða að þeir verða neyddir til að taka laun sín úr vasa hjeraðsbúa, með því að hækka verðið á læknisverkum sínum.

Hv. allsherjarnefnd hefir nú þóknast að leggja rökstudda dagskrá, eins og nokkurskonar krans, á leiði þessa frv., og jeg verð líklega að sætta mig við þá útför í þetta sinn. En jeg hefði kosið, að dagskráin hefði verið orðuð dálítið öðruvísi, og, með leyfi hæstv. forseta, vil jeg leyfa mjer að lesa upp svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Í því trausti, að stjórnin á næstu árum taki skipun læknishjeraða til gagngerrar endurskoðunar, sjerstaklega með tilliti til þeirra óska, sem komið hafa fram á síðari þingum í því máli, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Það er lítill munur á þessari dagskrá og dagskrá nefndarinnar. Hann er að eins sá, að teknar sjeu til greina óskir þjóðarinnar, sem fram hafa komið á síðari þingum, um málið. Ef dagskráin verður samþykt, ber jeg það traust til landsstjórnarinnar, að hún taki hana til greina, og kosti af fremsta megni kapps um að koma máli þessu í sæmilegt horf. En ef það skyldi bregðast, þá treysti jeg því, að landlæknirinn, sem vörður heilbrigðismálanna í landinu, reyni að hrinda því til vegar.

Allsherjarnefndin tók aftur rökstudda dagskrá á þgskj. 268.