06.08.1917
Efri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í C-deild Alþingistíðinda. (3699)

100. mál, úthlutun landsverslunarvara

Karl Einarsson:

Mig langaði til að segja fáein orð. Finst mjer það ekki eiga vel við, að fyrirspyrjandinn (M.T.) taki einn til máls, því að þeir munu vera fleiri þingmennirnir, sem hafa hitt og annað um vöruúthlutunina að segja.

Hæstv. atvinnumálaráðherra gat þess, að meginreglan, sem stjórnin hefði farið eftir við úthlutunina, væri sú að líta á birgðirnar, sem væru fyrir hendi, og þarfir landsmanna. Og um þarfirnar gat hann þess, að stjórnin hefði farið eftir skýrslum um þær og öðrum atvikum. Jeg undirstrika þetta orðalag, því að mjer þykir það æði einkennilegt, og mun jeg drepa síðar nokkru nánar á það. En jeg ætla nú að líta á, hvernig stjórnin hefir úthlutað sykri og matvælum og öðrum vörum til Vestmannaeyja, með þessa reglu fyrir augum. Jeg get ekki borið um það, hvernig úthlutuninni út um landið hefir verið hagað, því að þar þekki jeg ekki nógu vel til.

Þess er þá fyrst að geta, að í janúarmánuði hafði verið sykurlaust í Vestmannaeyjum frá því í október f. á. Reyndar höfðu komið 5 tonn í nóvember af púðursykri, en hann var allur rifinn út á einum degi, eða því sem næst, fyrir jólin. En í janúar komu 3.500 kg. af sykri, eftir ráðstöfun stjórnarinnar. Jeg fjekk brjef um það áður, að von væri á þessu, og notaði jeg þá tækifærið til þess að tala um það við stjórnina, hvort ekki væri rjett að úthluta þessum sykri strax meðal almennings. Jeg skal taka það fram í þessu sambandi, að þegar jeg tala utn stjórnina, þá á jeg einnig við þá menn í stjórnarráðinu, sem hafa umboð til þess að taka ákvarðanir fyrir stjórnarinnar hönd. Jeg skýrði stjórninni frá, að allur almenningur væri sykurlaus, þó að einstaka maður ætti ef til vill eitthvað talsvert af þeirri vöru. Stjórnin vildi ekki fallast á tillögu mína um úthlutunina, en fjekk kaupmönnum sykurinn til sölu, þó með þeim ummælum, að selja skyldi hann í smásölu. Afleiðingin var sú, eins og hægt var að sjá fyrir, að sykurinn gekk allur upp á fám dögum. Menn gengu búð úr búð og keyptu 10 eða 20 kg. á hverjum stað, og ekki er með öllu grunlaust, að það hafi komið fyrir, að kaupmenn hafi stundum selt í stærri skömtum. En svo fór, að allur almenningur var algerlega sykurlaus í byrjun febrúarmánaðar. Jeg tilkynti, samkvæmt fyrirspurn frá stjórnarráðinu, að Vestmannaeyjar þyrftu 55.000 kg. af sykri til júníloka. Bað jeg hvað eftir annað um sykurinn í síma, og eftir að símasambandið til lands var slitið, brjeflega, og gat þess, hve illa stæði á vegna mislinganna. Sá vágestur hafði borist til Eyjanna fyrir sjerstakt slys og af þessum þrem orsökum, sviksemi, misgáningi læknis og óviljaverki, eftir að við höfðum varist í 6 mánuði. En, svo að jeg snúi mjer að vörunum, þá komu, fyrir ítrekaða beiðni, 13. mars, 360 kg. af sykri, og var honum úlhlutað fyrir ítrekaða beiðni, en þá kom það í ljós, að 1.894 menn, eða 324 fjölskyldur, voru sykurlausir, og er hægðarleikur fyrir hv. þingdeildarmenn að reikna út, hve mikið hefir orðið á hvern mann.

Litlu betur fór með matvælin. Það var landsstjórninni að kenna, að hveitilaust var svo að vikum og mánuðum skifti, og í annað sinn rúglaust. Hvorttveggja var stjórninni að kenna, því að hún hafði fullkomnar skýrslur um, hvernig ástatt var, og hafði hins vegar vörurnar og gat sent þær.

Þá er að segja frá olíunni, saltinu og kolunum. Olíusagan er harla einkennileg. 20. febrúar þegar 18 dagar voru liðnir af vertíðinni, voru 411 tunnur til af steinolíu, en mótorbátarnir voru 65. Þessi talning fór fram að tilhlutun stjórnarráðsins, ef jeg man rjett En svo fór aftur talning fram 20. apríl, eftir tvo mánuði og þegar langt var liðið á vertíð. Það kom þá í ljós, að enn voru til 160 tunnur, enda hafði komið olía í millitíð og enginn tilfinnanlegur skortur orðinn enn. En það var aðgætandi, að þessi olía var nú í höndum einstakra manna, og 17 útgerðarfjelög voru olíulaus. En jeg verð að taka það fram, að nokkur af þeim fjelögum áttu þó von á hlutdeild í olíu, ef hún kæmi. Jeg lagði það nú til, í brjefi til stjórnarráðsins, að þessi olía, sem til var, yrði tekin eignarnámi og henni úthlutað, svo að allir fengju þó eitthvað, og til þess að unt yrði að hafa hönd í bagga með því, að hún yrði ekki notuð í óhófi, því að það er alkunnugt, að mikið má spara olíu og sjerstaklega salt, fram yfir það, sem venjulega á sjer stað. Stjórnarráðið svaraði þessari tillögu eftir langan tíma á þá leið, að hún gæti ekki komið til mála, sökum þess, að ekki lægi nein tillaga fyrir frá sýslunefnd og hreppsnefnd. Nú er það aðgætandi, að í lögunum um ófriðarráðstafanir er tekið fram, að stjórnarráðið eigi að afla sjer upplýsinga um, hvort neyðarástand sje fyrir hendi. Þessar upplýsingar fjekk það hjá mjer, svo að svarið var í raun og veru algerlega út í hött. Jeg fylgdi þó þessari reglu framvegis og ljet nú sýslunefndina og hreppsnefndina biðja um alt, en jeg veit ekki betur en að kröfur þeirra hafi þá fyrst verið teknar til greina, er öll olía var búin.

En þótt svona illa liti nú út með olíuna, þá rættist betur úr því en á horfðist. Það var gæftaleysi mikið, og sparaðist við það olía, er. Það var vissulega ekki stjórninni að þakka. En eftir 20. apríl urðu gæftir góðar og landburður af fiski, og hefir það haldist til þessa dags. Og þá fór svo, að margir bátar urðu að hætta við veiðar vegna olíuleysis, og það var landsstjórninni að kenna. Alt var gert, sem hægt var, til þess að bæta úr þessu. Bátar voru sendir hingað eftir olíu, og þeir komu tvisvar með jarðolíu, sem rafmagnsstöðin átti hjer. Þær 40 tunnur, sem þannig náðist í, hafa gefið á annað þúsund krónur hver í ágóða. En svarið, sem bátarnir fengu, er þeir báðu landsstjórnina um olíu, var, að nóg olía væri til í Vestmannaeyjum! Fór landsstjórnin í þessu efni eftir „öðrum atvikum“, eins og hæstv. atvinnumálaráðherra komst að orði. Leynilegu hjali óhlutvandra manna var betur trúað en opinberum skýrslum. Jeg skrifaði stjórnarráðinu um þetta og kvað það vera í fyrsta skifti, að skýrslur mínar væru rengdar og betur væri trúað tali óviðkomandi manna. Veit jeg ekki til þess, að stjórnarráðið hafi enn fundið ástæðu til þess að gefa mjer áminningu fyrir það brjef.

En nú kem jeg loks að toppkórónunni í þessu máli. Bisp kom frá útlöndum með olíu um mánaðamótin maí og júní. Stjórnarráðinu var kunnugt um, að olíulaust var í Vestmannaeyjum, og það vissi ekki betur en að þar væru 65 mótorbátar, sem ætti að gera út um sumarið. En þegar til kom, þá fengu þessir 65 bátar 50 tunnur af olíu. Mjer þótti þetta svo hlægilegt, að mig rak alveg í rogastans. En hvað fæ jeg að vita, þegar jeg fer að spyrjast fyrir í stjórnarráðinu um, hvernig á þessu standi? Svarið er, að það liggi engin beiðni fyrir um olíu frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum; að vísu hafi komið fram beiðni í sýslufundargerðum, og sje ekki mark á því takandi! En jeg hafði einmitt látið mjer fyrri fyrirmæli stjórnarráðsins, um að slíkar beiðnir yrðu að koma frá hrepps- og sýslunefndum, að kenningu verða, og látið sýslunefnd og hreppsnefnd biðja um 500 tunnur af olíu. Og nú komu ekki nema 50 tunnur. Og jeg verð að taka það fram, að þetta, sem beðið var um, var ekki meira en Vestmannaeyjar áttu fullkomlega heimtingu á, samkvæmt nákvæmum útreikningi á því, hvað bátarnir þyrftu að nota um sumarið. Það ganga þaðan 18 bátar, og er einn þeirra flutningabátur. Þessi flutningabátur er bráðnauðsynlegur til þess að halda uppi sambandinu við Vík og Stokkseyri. Hefði þessi olía komið, þá hefði það verið nægilegt til þriggja mánaða handa bátunum og auk þess til eldiviðar í heimahúsum. Því að stjórnarráðinu var sömuleiðis kunnugt um það, að eldiviðarlaust var í Vestmannaeyjum hjá öllum þeim, sem höfðu ekki getað birgt sig upp fyrir löngu.

Í vor var á þingmálafundi í Vestmannaeyjum samþykt með öllum greiddum atkv. yfirlýsing, þar sem lýst er yfir mjög megnri óánægju yfir flutningi og úthlutun á steinolíu til Vestmannaeyja, þar sem tómlæti stjórnarinnar í þeim efnum hefir ekki einungis bakað mörgum eignatjón, heldur er ekki loku fyrir það skolið, að það hafi spilt heilsu manna, því að fjöldi manna var eldiviðarlaus um langan tíma. Hreppsnefndaroddvitinn í Vestmannaeyjum getur best borið um þetta, því að hann hafði mest afskifti af þessu máli. Loks sendi stjórnin 3 tunnur af steinolíu, er sjerstaklega voru ætlaðar til eldsneytis, og var það fyrir áeggjan manns, er var staddur í Reykjavík og gat lýst ástandinu átakanlegar en hægt er í brjefum. Og þó að skýrt hafi verið frá því í brjefum til stjórnarinnar, að fólk hafi komið grátandi og beðið um olíu á „primus“-vjel, þar sem það gat ekki heldur kveikt upp í eldavjel sinni, þá er það samt fyrst fyrir milligöngu þessa manns, að landsstjórnin veitir Vestmannaeyingum úrlausn.

Nú nýlega hefi jeg heyrt, að senda ætti 195 tunnur af steinolíu til Vestmannaeyja. Ekki veit jeg, hvort hjer er farið eftir reglunum um fyrirliggjandi birgðir annars vegar og þarfir hins vegar. Þætti mjer gaman að heyra, hvaða úthlutunarreglum hjer er fylgt.

Eins og jeg hefi þegar tekið fram var það gæftaleysinu að kenna, eða öllu heldur að þakka, að ekki varð olíulaust fyr en í síðustu viku vetrarvertíðarinnar, og einnig því að þakka, að stjórnin varð sjer ekki til minkunar um saltleysi, þar sem henni þó var í lófa lagið að koma í veg fyrir það, hefði hún farið eftir tillögum mínum og sýslunefndarinnar.

Þá kem jeg að kolunum. Jeg hafði fengið vitneskju um það, að það væru hrepps- og sýslunefndir, sem ættu að biðja stjórnarráðið um vörur. Bað þá sýslunefnd um 100 tonn af kolum. Svo leið og beið. Þá kom „Ceres“ úr fyrstu England-ferð sinni með kolafarm. Þeim farmi var úthlutað í Reykjavík og að einhverju leyti út um land, að jeg hygg. Og er hún kom til Vestmannaeyja á útleið, hafði hún engin kol þangað. Voru þá á ný send símskeyti og brjef til stjórnarráðsins, og kom þá upp úr dúrnum, að engin beiðni hefði legið fyrir þess efnis frá Vestmannaeyingum. Þá var brugðið við og sent til Eyjanna það, sem einn vjelbátur gat tekið, eða 25 smálestir. Það er alt og sumt, sem þangað hefir komið af kolum.

Jeg vona, að háttv. deild samþykki dagskrá þá, sem komið hefir fram. Jeg lít ekki á dagskrána sömu augum sem hæstv. atvinnumálaráðherra, að í henni felist traustsyfirlýsing til stjórnarinnar, heldur hið gagnstæða. Álít jeg, að ekki að eins eigi að athuga, hvað stjórnin hefir gert, heldur öllu fremur, hvernig úthlutuninni yrði haganlegast komið fyrir framvegis, og umfram alt, að sú handahófsskifting hverfi, sem fer fram eftir því, hve einstakir menn eru duglegir að liggja í eyrum stjórnarinnar með umkvartanir sínar.