16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

36. mál, stimpilgjald

Magnús Pjetursson:

Jeg bjóst við, að einhverjir fleiri yrðu til þess að taka til máls um þetta frv., og því kvaddi jeg mjer ekki hljóðs strax. Jeg ætla mjer auðvitað ekki að verða langorður, en vil að eins lýsa yflr því, að mig furðaði stórlega, hvernig fjárhagsnefnd hefir gengið frá þessu máli. Hún lýsir því auðvitað yfir, að hún hafi ekki fallist á þetta frv. með glöðu geði, og svo er að skilja á henni, að hún leggi þann skilning í stimplun farmskírteina, að það sje ekki annað en grímuklætt útflutningsgjald. En úr því að nefndin er á þessari skoðun, þá skil jeg ekki hvernig á því stendur, að hún skuli ekki hafa sjeð sjer fært að skilja þetta frá hinu, eins og jeg benti á við 1. umr. Jeg sje ekki, að það hefði þurft að vera nein sjerstök tímatöf að því, en það hefði gert málið skýrara, bæði fyrir þing og þjóð, og hún hefði þá vitað, hvað átt er við með þessu. Að vísu hefir nefndin bætt nokkuð úr skák með því að ákveða vissan tíma, sem þetta ákvæði skuli gilda.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta, en jeg vil lýsa yfir því, að af því að fjárhagsnefnd hefir ekki greint þetta sundur, þá mun jeg greiða atkv. móti frv. við þessa umr., og vona, að þetta verði lagfært áður en það kemur til 3. umr.