01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

81. mál, launamál

Frsm. (Pjetur Jónsson):

Jeg ætla ekki að halda langa framsöguræðu. Jeg hefi vikið að þessu máli áður og komist þá inn á sömu leið og till. fer. Mjer finst, að þingmenn geti ekki sloppið við að svara tilmælum þeim um launabætur, sem fyrir þinginu liggja.

Tilgangur flutnm. er sá, að nefndin, sem stungið er upp á, taki þessar málaleitanir til athugunar og samanburðar við kjör annara embættismanna og rannsaki, hvort ástæða sje til að bæta kjör hinna og þessara embættismanna, sem eigi hafa fundið ástæðu til að senda þinginu kvartanir yfir kjörum sínum.

Það, sem kom oss til að bera fram till. þessa, var, að vjer höfðum heyrt raddir um það frá nálega öllum, er greitt höfðu atkvæði móti launabótum þeim, er til meðferðar hafa verið, að þeir hefðu eigi gert það vegna þess, að þeim hafi þótt slíkar kröfur ósanngjarnar, síst sumar, heldur af hinu, að það, sem fyrir lá, skapaði ósamræmi móts við aðra og misrjetti. Jeg bygg, að meiri hluti hv. deildarmanna mundi vilja víkjast undir slíkar umbætur, ef gerðar væru rjettlátlega og með reglu og yfirliti yfir heildina. Jeg býst við, að nefndin mundi taka jafnt tillit til frv. þeirra, sem hjer liggja fyrir, t d. frv. um laun háyfirdómara og skrifstofustjóra í stjórnarráðinu og frv. um launakjör lækna og annara till., sem fara í svipaða átt.

Það getur verið vafamál, ef stinga á upp á launabótum, hvort þær ættu að eins að vera breyting á dýrtíðarlögunum eða bráðabirgðabreyting á launalögunum, því að jeg geri ekki ráð fyrir, að neinum detti í hug, að nefndin geri algilda breytingu á launalögunum til frambúðar. Fyrir oss vakti að eins bráðabirgðaumbót, er væntanleg nefnd áliti tiltækilega. Vík jeg ekki nánar að því að þessu sinni, hvort bráðabirgðalaunahækkun muni vera heppilegri en dýrtíðaruppbót.

En um það atriðið, hvort nauðsyn beri til að skipa sjerstaka nefnd í mál þetta, í stað þess að fela það fjárveitinganefndinni, skal jeg geta þess, að jeg vildi ekki toga málið inn í fjárveitinganefndina. Mjer þykir haganlegra að velja sjerstaka nefnd með beinni hliðsjón til þessa máls. Einnig hefir komið til mála, að Ed. veldi samskonar nefnd, og teldi jeg það heppilegt, og svo hitt, að samvinna gæti orðið milli nefndanna. En þá þarf ekki 7 menn í nefndina hjer, og er því tillaga um að fækka nefndarmönnum um 2. Nú þótt fjárveitinganefnd yrði falið málið, ætti slík samvinna að geta átt sjer stað. Hjer er sem sje borin fram brtt. um að fela fjárveitinganefnd málið.