22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

36. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg er nefndinni þakklátur fyrir undirtektir hennar undir frv. Brtt. hefir hún að vísu gert, en jeg sje ekki ástæðu til þess að eyða mörgum orðum um þær, því að þær hafa engin veruleg áhrif á þann tekjuauka, sem lögunum er ætlað að gefa. Sumar orðabreytingar nefndarinnar álít jeg að sjeu til bóta. Að því er snertir fyrri brtt. við 10. gr. skal jeg geta þess, að hún felur ekkert í sjer, sem ekki felst í 10. gr. frv; en hún er skýrari og því til bóta. — Að eins ein brtt. er veruleg, sú, að lögin gildi til 1919, í staðinn fyrir til 1921, eins og í frv. stendur. Mjer þykir það koma nægilega ákveðið fram, að þessi lög eru að eins til bráðabirgða, þótt þau sjeu látin gilda til 1921. Það yrði og of stuttur prófunartími fyrir lögin að standa að eins til næsta þings. Hins vegar er þetta ekki í mínum augum neitt aðalatriði. Því að þótt þessi brtt. verði samþ., er jeg viss um, að lögin fái að standa til 1921.

Í tilefni af ræðu háttv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) skal jeg geta, þess, að það hefir engin dul verið dregin á það, að stimpilgjaldið á farmskrám er í raun og veru útflutningsgjald. Það er ekki heldur rjett, að gjaldið af farmskrám sje það eina, sem verulega muni um. Það er örðugt að segja um það, hve miklu það nemi, sem þinglesið er árlega í landinu, en ekki mun ofætlað, að það sje fyrir 10 miljónir kr. Skatturinn af því mundi nema 100 þús. kr. Víxla má reikna um 50 miljónir króna á ári. Það ætti því að sjást, þótt jeg nefni ekki fleira, að farmskrárnar verða ekki einar um það að gefa tekjuaukann.

Um athugasemdir háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) þarf jeg fátt að segja. Þær komu lítið víð fjárhagsatriði þessa máls, að öðru leyti en því, að hann taldi of lágt innheimtugjaldið. En þetta er orðinn gamall siður hjer á landi, að fela sýslumönnum og lögreglustjórum mikil störf fyrir lítil ómakslaun.

Hvað ábyrgð innheimtumanna snertir, býst jeg ekki við, að hún verði neitt hættuleg. Innheimtumennirnir ráða sjálfir hverjum þeir lána (Jóh. Jóh.: Nei, þeir eru beint skyldaðir til þess að lána). Það finst mjer ekki heldur skifta máli, þótt nokkurt gjald lendi á skipunarbrjefum hreppstjóra og yfirsetukvenna. Annars skal jeg ekki segja fleira um þessar athugasemdir hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.). Sumar voru kannske sanngjarnar,og býst jeg við, að hv. nefnd taki þær til íhugunar.