23.04.1918
Neðri deild: 8. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

16. mál, mótak

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg verð að eins með fáum orðum að svara háttv. þm. Borgf. (P. O.).

Í sinni löngu ræðu talaði hann mest um það, að inn í þetta frv. vantaði ákvæði um, hvernig ganga skuli frá mógröfum. (P. O.: Jeg benti á það meðal annars). Jeg vil því láta hann vita af því, að til eru lög frá 1912, sem mæla fyrir um þetta atriði. Eftir þessum lögum er hægt að skylda menn til að ganga svo frá mógröfum, að ekki stafi hætta af. (P. O.: Er hægt að koma fram sektum, ef ekki er hlýtt?) Já, það er hægt. Af þessu getur því háttv. þm. (P. O.) sjeð, að í þessu frv. eiga ákvæði um slíkt alls ekki heima, svo að þetta atriði er misskilið af háttv. þm. Borgf. (P. O.).

Þar sem háttv. þm. Borgf. (P. O.) gerði mikið að því, að hnýta í Búnaðarfjelag Íslands, vil jeg geta þess, að þessi lög frá 1912, um mótak, eru undan þess rótum runnin, svo að það er ekki rjett, að fjelagið hafi ekkert gert fyrir þetta mál. (P. O: Það hefir ekkert gert síðan). Það hefir ekkert getað gert, þar sem framkvæmd laganna er í höndum hreppsnefnda og sýslunefnda.

Hvað hinu atriðinu viðvíkur, sem hv. þm. Borgf. (P. O.) mintist á, að allur mór yrði rifinn úr þeim jörðum, sem liggja vel við, og jarðirnar þannig gerðar verðminni en áður, þá er því til að svara, að mjer finst rjettara að stuðla fremur að velferð landsmanna heldur en að sýta það, þótt eitthvað af mólandi kynni að eyðileggjast. (P. O.: Það er til meðalvegur). Já, en háttv. þm. (P. O.) virtist ófús á að fara nokkurn meðalveg, en jeg vil aftur láta þess getið, að jeg er fús á að ganga að þeim brtt., sem mjer finst sanngjarnar.

Enn fremur vil jeg láta þess getið, að jeg álít ekki, eins og háttv. þm. Borgf. (P. O.), að þótt þetta frv. yrði að lögum, þá yrði það til þess, að meiri mór yrði tekinn upp en áður fyr. Það vita allir, að mór verður tekinn mikið upp á þessu ári, hvort sem frv. nær fram að ganga eða ekki; en það, sem frv. vill aðallega koma í veg fyrir, er, að einstaka menn geti okrað fram úr hófi á mólandinu.

Sami háttv. þm. (P. 0.) hjelt því líka fram, að frv. væri óþarft vegna þess, að þeir, sem taka þyrftu upp mó, og landeigendur gætu komið sjer saman hjer eftir sem hingað til. Þetta fer alveg fyrir ofan garð og neðan, því að þessi lög ná ekki heldur til eða útiloka viðunanlega samninga, heldur eiga þau að gilda að eins þar, sem ekki fæst samkomulag eða viðunanlegir samningar.

Enn fremur hjelt hinn sami háttv. þm. (P. O.) því fram, að frv. þetta eyðilegði samningana milli leiguliða og jarðeigenda, en þetta er að eins rjett í því tilfelli, að annar maður en leiguliði þarfnist mótaks í landi leigujarðar og jarðareigandi hafi bannað mótak. Og jeg get ekkert sjeð á móti því að gera slíka samninga ógilda, þar sem nægilegt mótak er í landi, því að það væri æði hart, ef eigendur slíks lands gætu alveg bannað mótak í þeim eldiviðarvandræðum, sem nú eru.

Að lokum vil jeg geta þess, að jeg þekki þess dæmi, að landeigendur, sem mikið mótak hafa í landi sínu, hafa haft í hótunum um að hækka gjaldið fyrir mótökuleyfið mjög mikið, en þar eð jeg tel slíkt athæfi með öllu ósæmilegt, þá vil jeg einmitt koma í veg fyrir slíkt með þessu frv.