24.07.1919
Neðri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2951)

83. mál, hvíldartími háseta

Bjarni Jónsson. Jeg verð að segja, að mjer finst vægt farið í sakirnar með þessum lögum, þar sem tiltekið er um 8 kl.tíma hvíld. Það mætti skilja svo, að 6 kl.st. væru ætlaðir til svefns, en 2 til matar, svo frá því sjónarmiði hefi jeg ekki á móti lögunum. Annars tel jeg lítt hugsanlegt, að mikil brögð sjeu að því, að vinnuveitendur misbjóði fólki svo, að það verði vart vinnufært. Jeg sje ekki, hvaða hagnað þeir hefðu af því. Þeir hljóta að sjá nauðsynina á því, að menn fái sæmilega hvíld, svo að þeir hangi ekki hálfsofandi við verk sitt. — Hins vegar er ekki hægt að útiloka það með lögum, að þeir vinni fram yfir ákveðinn tíma, ef sjerstaklega stendur á, t. d. að bjarga þarf veiðarfærum eða annað þess þáttar kemur fyrir. Slíkt ákvæði má ekki heldur vera í lögum, sem bannar mönnum athafnir, ef líf liggur við. Það væri því nóg, að í lögunum stæði, að hásetar ættu kröfu til 8 stunda hvíldar, en þyrftu ekki að fylgja því ákvæði frekar en þeir sjálfir kysu.

Þessar bendingar vildi jeg gefa háttv. nefnd, sem fær málið til meðferðar.

En þá er enn ósvarað þeirri spurningu minni, hvers vegna ákvæði þetta skuli ekki eiga að ná til annara en sjómanna, og hví ekki til annara af þeim en þeirra, sem veiðar stunda á botnvörpungum.

Mjer skilst þó, að eins miklar vökur eigi sjer stað á sumum öðrum skipum, t. d. við síldveiðar. Jeg veit því ekki, hvaða ástæða er til þess að taka þennan eina flokk út úr, nema ef vera skyldi gert af sjerstökum hug til þeirra útgerðarmanna.

Þá vildi jeg benda hv. flm. (J. B.) og háttv. nefnd á það, að lagavernd fyrir annara þjóna er svo best góð, að hún bindi ekki fyrir hendur þeirra, ef einhverjir eru, sem vilja vinna fram yfir ákveðinn tíma, til þess að afla sjer fjár.

Lögin mega því ekki ákveða meira en að menn skuli ekki skyldir að vinna meira en tiltekinn tíma fyrir hið ákveðna kaup sitt. Hitt má engum banna, að vinna lengur fyrir hækkuðu kaupi.

Það væri alveg rangt að fara hjer sömu leiðina og farin var til þess að vernda búðarfólk fyrir oflöngum búðarstöðum. Það getur engan veginn talist rjett að skipa að loka öllum búðum á sama tíma og banna með því jafnvel sjálfum eigandanum að standa í búð sinni, þótt það geti verið honum ánægjustundir. Eins er þetta til óhagnaðar mörgu fólki, sem ekki getur verið til taks að ljúka kaupskap sínum fyrir vissa mínútu dagsins, sem ákveðin er af stjórnarvöldunum, til lokunar búðanna.

Svo má ekki hjer fara, heldur verður að ákveða, að menn sjeu ekki skyldir að vinna fyrir umsömdu kaupi lengur en þann ákveðna tíma, en annars frjálst að vinna lengur fyrir hækkuðu kaupi. Annars er það beint slegið úr höndum manna að vinna sjer inn fje, þó að tækifæri bjóðist og full þörf sje á.

Þetta vildi jeg að eins benda á, svo að það, sem verða á stjettinni til stuðnings, geti ekki orðið henni að fótakefli.