15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (3062)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg gat ekki orðið samferða nefndinni um að flytja þetta frv. á þgskj. 793. Til þess liggja ýmsar orsakir, en þó er einkum tvent, sem veldur. Fyrst er það, að jeg er þeirrar skoðunar, eins og hv. 1. þm. Árn. (S. S.) tók fram fyrir sitt leyti, að það sje mikil tvísýna, að slík lög um sjerleyfi, sem hjer á að setja, verði notuð. Jeg tel mikla tvísýnu á því, að nokkur vilji ganga að þeim sjerleyfisskilyrðum, sem sett eru með frv. Þó eru það ekki gjaldakvaðirnar sjálfar, þó harðar sjeu, sem mjer virðist að muni aftra, heldur er það hin stranga og nákvæma, jafnvel smásmuglega, eftirlit, sem sjerleyfishafinn yrði háður. Hitt, sem veldur því, að jeg gat ekki fylgst með nefndinni, er það, að frv. er litlaust. Það er litlaust að því leyti, að ekki verður vitað af því, hverjir geti fengið sjerleyfi, og heldur ekki, hver á að fá að hagnýta vatnsorkuna án sjerleyfis, þegar um smávirkjun ræðir. — Það er að vísu talað um, að leyfisumsækjandi verði að hafa fengið heimildir á vatninu, en það sjest ekki, hverskonar heimildir, og er þetta óbrúklegur tvískinnungur í orðbúningi frv.

Reyndar hefir hv. frsm. (G. Sv.) lýst því yfir, að þessar heimildir verði að skoða eins og eignarrjett eða leigurjett; en því þá ekki að nota þau orð, sem ákveðna og nauðsynlega skýringu gefa?

Í sjerleyfislagafrv. á þgskj. 123 eru landeiganda áskilin tiltekin orkunot án sjerleyfis, og líkt — þótt loðnara sje — var ákvæði meiri hl. fossanefndar; en hjer er landeigandi ekki nefndur, fremur en honum kæmi ekki við virkjun á landi hans.

Um fyrra atriðið, að enginn muni sjá sjer fært að sækja um leyfi eftir lögunum, vegna kvaða þeirra, er þau liggja á, get jeg að vísu sagt það, að mjer væri slíkt ekki óskapfelt. Jeg hefi enga tröllatrú á stóriðju hjer á landi og vil ekki opna fyrir henni allar gáttir. Mætti jeg ráða, mundi jeg vilja halda henni utan vjebanda þessa lands nokkra áratugi enn. Jeg hygg, að sú iðja gæti skapast hjer jafnhliða þeim atvinnugreinum, er vjer stundum, sem holl er og samrýmanleg þjóðarhögum vorum.

En úr því að áhugi fólksins fyrir vatnaiðju er svo mikill, að hana á að leyfa, þá er einsætt, að setja verður þau sjerleyfislög, sem viðlit er að nota; ella er lagasetningin hjegómi. Sjerleyfisskilyrðin verða að vera ítarleg um það, sem verulegt er, en ekki, eins og hjer, aðallega um form. Skorður þarf að reisa við of stórum og mörgum virkjunum, og yfirleitt að hafa hliðið þröngt að þessum fyrirtækjum, sem leyfð eru útlendingum.

Þetta gæti nægt sem greinargerð frá minni hálfu fyrir þessu frv., af því að ekki má fara út í einstakar greinar. Jeg hefi margt að athuga við einstaka liði þess.

Það mætti má ske segja, að jeg hefði átt að fylgja nefndinni að málum, en koma heldur fram með brtt. við það, sem jeg teldi athugavert. En þar er því til að svara, að frv.byggingin öll er svo fjarlæg því, sem jeg tel eiga að vera, að því þyrfti að umsteypa öllu til þess að jeg gæti við unað, og nú er enginn tími eða tækifæri til slíkra gerbreytinga á þeim fáu dögum, sem eftir eru til þinglausna.

Það var ýmislegt af því, sem háttv. frsm. (G. Sv.) sagði, sem jeg finn ástæðu til að svara, en ætla ekki að þessu sinni að eiga mikið við.

Hv. frsm. (G. Sv.) fór vel með efnið, synti kænlega milli skers og báru, og verð jeg því að segja, að það er ekki vandalaust. (B. J.: Hver er sú bára og það sker?). Hann kom að þessum ágreiningi í milliþinganefndinni, sem olli því, að hún klofnaði, og líklega verður til þess, að ekkert gengur fram á þessu þingi af fossamálunum, sem þó var ætlast til að yrði, af þinginu 1917. Því að þótt margir líti svo á, og hafi enda sagt það fullum fetum, að ágreiningurinn hafi verið lítilfjörlegt atriði, formsatriði, sem nefndin klofnaði á, algerlega formfræðilegt eða „teoretiskt“ atriði, og enga „praktiska“ þýðingu haft, þá er það nú vonandi orðið þorra þingdeildarmanna ljóst, að ekkert verður að liði gert í þessu máli fyr en ákvörðun er tekin um eignarrjettarspurninguna. Einmitt þessi fáránlega kenning um, að ríkið ætti vatnið á löndum einstakra manna, hefir aftrað allri lagasetningu um þessi efni; ella væri nú alt í höfn komið, eða þá vel á veg.

Um þetta deiluatriði vill háttv. frsm. leita til dómstólanna og telur það líklegustu og eðlilegustu úrlausnina. Jeg verð að segja, að ef hjer væri deilt um rjett tveggja einstaklinga, yrði auðvitað þangað leitað. Jeg neita heldur ekki, að það geti átt við, er í hlut á einstaklingur annars vegar, en þjóðfjelagið hins vegar. En þegar svo stendur á, sem hjer, að annars vegar standa allir jarðeigendur landsins, en hins vegar ríkið, þá þarf eigi dómstóla að spyrja. Allir vita, hvernig þessu hefir verið háttað að fornu og nýju. Allir vita, að vatnið er hluti fasteignarinnar, að þær hafa gengið mann frá manni með gögnum og gæðum, og að hver á allan beinan og óbeinan rjett til afnota og umráða þess vatns, sem á landi hans er, nema löglega sje frá komið.

Segja má að vísu, að þetta snerti fremur till. þá, sem nefndin ber fram um Sogið, en hv. frsm. (G. Sv.) gerði sjer alltíðrætt um þetta efni í sambandi við sjerleyfislagafrv. þetta og dómstólaúrskurðinn, sem jeg tel bábylju eina, þar eð engin rjettaróvissa er til um eignarumráð vatnsins á einstakra manna löndum, nema hjá fjölvitringum meiri hl. fossanefndar og nokkrum eftirhermum þeirra.

Eignarrjettarspurningin er í sjálfu sjer mjög einföld og óbrotin, en úr því glundroði hefir verið gerður í málinu, með vefenging rjettarins, þá verður ekkert „effektivt“ gert að lagasetningu um notkun vatns fyr en þingið hefir fengið einurð til að hrista af sjer álög þessarar nýju kenningar um ríkiseign á vatni.

Það er rjett, að öll nefndin komst að þeirri niðurstöðu fyrst og fremst, að ekki væri tími til að koma vatnalögunum fram í þetta skifti, og enn fremur, að þótt það væri ekki hægt, væri þó nauðsyn að koma fram sjerleyfislögum nú. Jeg lít líka svo á, að sjerleyfislög þurfi að setja, vegna þess, að ýmsir þeir, er komist hafa yfir vatnsrjettindi hjer á landi, eru nú farnir að hreyfa sig til að nota vötnin. Og engin lög eru nú til í landinu, er segi fyrir um íhlutunarrjett ríkisins með athöfnum þessara manna. Tilgangur sjerleyfislaganna á, að minni skoðun, að vera sá, að kveða á um það, hvernig ríkið beitir drottinvaldi sínu gagnvart eigendum og notendum fallvatna í landinu, sjerstaklega þegar þeir ætla að virkja þeim stórvirkjum, sem leitt geta til verulegra breytinga á atvinnuháttum og því haft alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðfjelagið.

Jeg held því, eins og meiri hl. háttv. nefndar, að nauðsynlegt og heppilegt sje, að sjerleyfislög komist á, en þau verða þá að vera svo úr garði gerð, að viðlit sje að nota vötnin, en jafnframt að veita örugga vörn gegn of miklu innstreymi af útlendu fje og fólki.