19.09.1919
Neðri deild: 68. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (3081)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Bjarni Jónsson:

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) verður að fyrirgefa mjer, þótt jeg hafi ekki tekið eftir öllu því, sem hann sagði, en þó verð jeg að minnast nokkuð á þessa miljón. Annaðhvort hefir hæstv. forsætisráðherra (J. M.) viljað rugla menn, eða þá að hann hefir tekið skakt eftir, og er hvorugt gott. Jeg talaði sem sje um það, að þeir, sem ekki vildu láta dómstólana skera úr þessu ágreiningsefni, mundu skaða landið ef til vill um margar miljónir, er hjer væri orðið fult af fólki. Þetta sagði jeg, að af völdum brasksins á fossunum mundu þeir stíga um margar miljónir, ef þeirra vilji gengi fram, sem jeg talaði um. Þetta kemur ekki því við, sem nefndin er að tala um, að áætla eitt hestafl á mann til að vinna úr. Þetta er því alveg óviðkomandi, og er mjer óskiljanlegt, hversu hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hefir farið að blanda því saman. Það fellur því alveg niður, sem hann sagði um þetta atriði, og eins vona jeg, að mönnum skiljist, að mótstaða hans gagnvart þessu frv. sje á sandi bygð. Frv. er ekki illa undirbúið, því sanna má, að flest önnur frv. hafa verið miklu ver undirbúin. Hins vegar er lítil vörn í frv., sem þeim láðist að drepa á, um „afnot fasteigna“. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) verður að fyrirgefa, þótt jeg hafi gleymt ýmsu af því, sem hann sagði, því myllan í Fjarðará hefir verið svo þægileg í eyrum manna, að þá hefir syfjað á meðan hún var að mala, og menn vakna ekki, nema þeir heyri eitthvert stórmenni hneggja. Raunar vaknaði jeg nú, er jeg heyrði háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) komast að þeirri niðurstöðu, að dómstólarnir mundu hnupla eignum manna.