28.07.1919
Neðri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í C-deild Alþingistíðinda. (3703)

87. mál, dýralæknar

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Jeg get verið hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) þakklátur fyrir góðar undirtektir í þessu máli. Og jeg geri ráð fyrir, að landbúnaðarnefnd athugi þessa uppástungu hans, enda þótt jeg fyrir mitt leyti álíti, að ekki komi til mála að láta mannalækna fara að „fúska“ við dýralækningar. Það yrði ekki til annars en ills eins; þeirra læknisdómur yrði þá hvorki fugl nje fiskur. Þó að námið hjá manna- og dýralæknum kunni að vera eitthvað líkt á sumum sviðum er það þó mjög ólíkt í ýmsum verulegum atriðum. Jeg þarf ekki annað en benda á t. d. „Anatomi“ og „Fysiologi“. En sem sagt þá býst jeg við, að nefndin athugi þetta nánar. Hvað viðvíkur fækkun presta í Árnessýslu, sem hv. þm. (S. St.) drap á, þá liggur það mál ekki fyrir nú. Orðin, hvað þetta snertir, voru töluð með sjerstöku tilliti til þess, að prestakallaskipun á öllu landinu yrði tekin til meðferðar, og þá reynt að sameina prestaköll og fækka prestum þar, sem hægt væri, og þá auðvitað í Árnessýslu líka, ef það teldist gerlegt.