08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í C-deild Alþingistíðinda. (3721)

87. mál, dýralæknar

Einar Jónsson:

Margt kynlegt hefir komið í ljós við umr. þessa máls nú á síðustu tímum. Einna kynlegast af öllu þykir mjer þó, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) skuli vera farinn að berjast fyrir óþörfum embættafjölgunum. Dýralæknar eru nú fjórir á landinu. Eftir ákvæðum frv. er gert ráð fyrir að bæta 3 við. Þeir verða þá samtals 7. Mjer kæmi það ekki á óvart, þó að þessir 4 læknar notuðu sjer lög þingsins til þess að taka að sjer að þjóna þessum þrem embættum, sem auð eru, þangað til nýir menn fengjust, fyrir hálf laun eða eitthvað þvílíkt. Mjer þætti ekki ósennilegt, að frv. væri runnið undan rifjum dýralækna þeirra, sem í embættum sitja nú, eins eða fleiri.

Mjer kemur það ekki neitt kynlega fyrir, þó landbóndinn hafi gleggra auga fyrir, hversu frv. þetta er einskis vert, heldur en klerkurinn í Vigur (S. St.). (S. St.: Jeg er líka bóndi). Því það hefir sýnt sig, að hann er ekki að eins einangraður og þröngsýnn á þessu sviði, heldur og fleirum.

Bóndi, sem er búsettur langt frá dýralækninum, hefir engin not af honum. Setjum svo, að slíkur bóndi eigi hryssu, sem ekki getur fætt folald, og læknir næst ekki fyr en eftir eitt eða fleiri dægur. Sama gilti um aðrar gripategundir, og sama gildir um marga aðra sjúkdóma en fæðingarþrautir. Einn eða fleiri menn á hverju heimili þurfa helst að geta tekið til sinna ráða, þegar svo ber undir, en þeir hinir sömu myndu hljóta gott af að fá tilsögn hjá landsdýralækni í helstu alidýrasjúkdómum. En þó að dýralæknisembættum yrði fjölgað úr 4 upp í 7, værum við engu nær en áður. Auð embætti gera ekkert gagn, hvorki á þessu sviði nje öðru.