02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í C-deild Alþingistíðinda. (3342)

156. mál, erfingjarenta

Flm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Jeg get að mestu vísað til greinargerðarinnar við frv. Vitanlega fengu yfirsetukonur mikla rjettarbót með lögunum frá 1919, en þó hefir talsvert orðið vart við óánægju síðan. Einkum hefir hún stafað af því, að þeim var ekki ákveðin dýrtíðaruppbót eins og flestum öðrum opinberum starfsmönnum. Allir vita þó, að störf ljósmæðra eru engu ábyrgðarminni en önnur opinber störf, og virðist þá rjettlátt, að launin sjeu í líkum hlutföllum.

Annað er líka, sem mælir með þessu. Bólusetningar eru víða að færast í hendur ljósmæðra, en það er svo illa launað, að varla fæst neinn til að gera það. Jeg veit til, að borgunin hefir stundum verið aðeins 8–10 kr. fyrir 4 daga starf. Ef nú laun ljósmæðra væru hækkuð, mætti skylda þær til að vinna þetta. Annars verður óhjákvæmilegt að hækka taxtann fyrir bólusetningar að miklum mun.

Þá er þriðja atriðið. Á seinustu árum hefir verið mikil hreyfing í sveitunum í þá átt að fá hjúkrunarkonu í hverja sveit. Eins og nú er lendir hjúkrun oftast nær á yfirsetukonunum. Er það þó vitanlega ekki skyldustarf, enda hart í fólksfæðinni, sem nú er, að vera oft að heiman og fá sáralítil laun. Ef launin væru hækkuð, mætti miklu fremur leggja hart að þeim í þessu.

Jeg vona, að hv. deild taki þessu frv. vel, og legg til, að því verði vísað til fjárhagsnefndar að lokinni umr.