31.03.1922
Efri deild: 34. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (2043)

72. mál, prentunarkostnaður ríkissjóðs

Flm. (Guðmundur Ólafsson):

Samskonar till. og þessi var borin fram af fjárveitinganefnd í hv. Nd. 1919, en varð þá ekki útrædd. En prentunarkostnaður ríkisins hefir aukist stórum síðan, og fer að líkindum sívaxandi framvegis. Það stendur hjer í greinargerðinni, að hann hafi verið um 150 þús. kr. síðastliðið ár, en eftir því sem jeg hefi komist næst, við betri athugun, síðan jeg skrifaði greinargerðina, er þetta alt of lágt áætlað. Það er óhætt að fullyrða, að hann hafi ekki orðið minni en eitthvað yfir 200 þús. kr., ef ekki alt að helmingi meiri en þar stendur, því að kostnaður við prentun þingtíðindanna einna nam yfir 100 þús. kr. síðastliðið ár. Það eru líkur til þess, að mikið mætti spara af þessu fje, ef ríkið keypti prentsmiðju, sem rekin væri með dugnaði og fyrirhyggju. Og eftir því, sem við höfum kynst þessu máli á þessu þingi, er full ástæða til þess að skora á stjórnina að leggja fult kapp á, að ríkið þurfi ekki að sæta slíkum ókjörum með prentunarkostnað og það hefir sætt undanfarin ár.

Jeg vænti þess, að hv. deild sjái ekki ástæðu til annars en að samþykkja till., og eins vænti jeg þess, að stjórnin geri sitt ítrasta til þess að geta gefið næsta Alþingi greinilega skýrslu um alt, sem þessu máli viðvíkur, og hafi gert sitt til að koma því í framkvæmd. Það hefir oft verið skorað á stjórnina að gera hitt og þetta, en minna orðið úr framkvæmdum, en í þetta sinn vona jeg, að öðruvísi skipist.