12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2011)

19. mál, vitabyggingar

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Um þetta frv. um vitabyggingar á þskj. 266 get jeg að mestu leyti vísað til framhaldsnál. á þskj. 306. — Eins og hv. deildarmenn munu sjá, hefir frv. orðið fyrir talsvert miklum breytingum í hv. Ed., eigi að eins að formi til, heldur einnig að efni. Með þessum efnisbreytingum hefir verið tekið á burtu það, sem var aðalatriði og tilgangur frv., sem sje að losa þingið við deilur og reipdrátt um byggingu einstakra vita. Samgmn. lítur öll svo á, að verði frv. samþykt í þeirri mynd, sem hv. Ed. hefir skilið við það, væri það gagnslaust og mundi í engu breyta því ástandi, sem nú er. Í því eru engin nýmæli, önnur en upptalning vitanna í 2. gr. Ákvæði 1. gr. eru óþörf, því að eins mundi farið að, þó að þau væru ekki lögfest, og ákvæði 4. gr. liggja í hlutarins eðli. Stjórnin getur hvenær sem er látið framkvæma þessar vitabyggingar jafnharðan sem Alþingi veitir fje til þeirra.

Nefndin áleit rjettast að gera eitt af tvennu, samþykkja frv. í þeirri mynd, sem þessi hv. deild skildi við það, eða afgreiða það alls ekki. Meiri hluti nefndarinnar telur rjettara að samþykkja frv. í sömu mynd sem áður. En þeir 2 hv. nefndarmenn, sem ritað hafa undir nál. með fyrirvara, hafa ekki gert það af þeirri ástæðu, að þeir væru óánægðir með frv. eins og það var áður en því var breytt í hv. Ed., heldur vegna þess, að þeir telja vonlítið, að frv. komist í gegn, ef það fer nú að hrekjast á milli deildanna. Meiri hl. telur ekkert gagn að lögfesta frv. eins og það er á þskj. 266, og álítur sjálfsagt að breyta því í hið fyrra horf, hvort sem það verður til þess, að frv. fjarar uppi í hv. Ed. eða ekki.