11.05.1923
Sameinað þing: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. fjvn. Nd. (Magnús Pjetursson):

Jeg geri ráð fyrir því, að allir hv. þm. óski þess, að eigi verði langar umræður um þetta mál, og mun jeg gera mitt til þess að stuðla að því. Það mun þykja tíðindum sæta, að fjárlögin eru hjer til umræðu í sameinuðu þingi. Mun það eigi hafa komið fyrir síðan árið 1915. Kom það því fjvn. Nd. mjög á óvart, því að henni virtist eigi eins mikill ágreiningur á milli fjvn. deildanna nú sem oft áður, og þurfti þá jafnan meira tilefni til þess, að fjárlögin kæmu fyrir sameinað þing. Fjvn. Nd. sýndi þá sjálfsafneitun í fyrra að taka á móti fjárlögunum eins og þau komu þá frá hv. Ed. eftir 3. umr. þar, og þó var ágreiningurinn milli nefndanna um 70–80 þús. kr. Nú er ágreiningurinn eigi nema 17 þús. kr., og því fanst fjvn. háttv. neðri deildar fullkomlega hægt fyrir hv. Ed. að ganga að frv. eins og það kom frá hv. Nd. eftir eina umræðu þar. Jeg skal eigi fara mörgum orðum um till. þær, sem hjer liggja fyrir; aðeins leyfa mjer að minnast nokkuð á þær allra stærstu.

Það er þá fyrst till. um það að setja aftur inn till. um fjárveitinguna til rafmagnsveitunnar á Hólum. Fjvn. Nd. vil halda fast við till. Finst henni eigi rjett að varna því, að rafmagnsveitan komist í framkvæmd, þar sem bændaskólinn á Hvanneyri hefir nú fengið rafmagnsveitu og Alþingi hefir veitt honum fje til þess.

Er ekki minni ástæða til þess að styrkja þessa rafmagnsveitu en rafmagnsveituna á Hvanneyri. sjerstaklega þegar á það er litið, að það er enginn vafi á því, að rafmagnsveitan á Hólum mun verða til þess að lækka mjög allan rekstrarkostnað skólans í framtíðinni. En um Hvanneyrarrafmagnsveituna verður eigi hið sama sagt, því að rafmagnið þar er nærfelt aðeins til ljósa, en á Hólum er ætlast til þess, að það verði þæði til hitunar og suðu, auk ljósa, og til þess að reka með smávjelar. Er það eigi nema 20 þús. kr., sem farið er fram á til Hóla, en Hvanneyrarskóli fjekk 18 þús. kr.

Þá kem jeg að brtt. um það að færa aftur niður byggingarstyrkinn til barnaskóla utan kaupstaða. Jeg hefi áður tekið það fram, að fjvn. Nd. treysti sjer ekki til að mæla með því, að reist yrðu ný skólahús eins og nú standa sakir. En úr því að Alþingi vildi styrkja skólana á einhvern hátt, þá lagði nefndin það til, að aðeins þeir skólar, sem þegar eru reistir, yrðu styrktir til viðbótar eða aðgerðar, eftir því sem þyrfti. Jeg skal svo eigi minnast á fleiri einstakar till., en aðeins geta þess, að þeim láns- og ábyrgðarheimildum, sem í frv. voru áður, hefir nefndin viljað lofa að vera þar kyrrum. Nefndin lítur svo á, að úr því að sú stefna var eigi tekin upp, að útiloka algerlega allar láns- og ábyrgðarheimildir úr frv., þá væri enginn skaði skeður, þó að í því væru einhverjar smálánsheimildir, sjerstaklega þegar þess er gætt, að lánin verða alls eigi veitt, nema peningar til þess sjeu fyrir hendi. Fjvn. Nd. væntir þess, að hv. Nd. sýni henni fylgi sitt nú sem áður, og ætti það eigi að koma hv. Ed. á óvart, þó að brtt. Nd. verði samþyktar, því að Nd. hefir vitanlega atkv. sameinaðs þings og á samkvæmt stjórnarskránni að hafa meiri áhrif á fjárlögin. Enn fremur geng jeg þess eigi dulinn, að fjvn. Nd. mun fá nokkurt fylgi úr hv. Ed. Læt jeg mjer þetta nægja og þykist eigi hafa gefið tilefni til mikilla umr. um málið, og býst jeg því við, að jeg þurfi eigi að standa upp aftur.