26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

1. mál, fjárlög 1925

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru örfá orð. Það hafa ekki svo fáir hv. þm. vikið að þm. Strandamanna í dag. Sjerstaklega voru það þó tveir af ráðherrunum, sem sýndu mjer þann sóma að spretta upp úr sæti sínu strax og jeg hafði talað. Það er þess vegna ekki ástæðulaust, að jeg læt falla nokkur orð áður en umr. er slitið.

Hæstv. forsrh. hefir sýnt þessari hv. deild hina sömu virðingu nú og við umr. fyrri kafla fjárlaganna. í bæði skiftin varla komið á fund. Tel jeg þetta allóviðkunnanlegt. Af þessari ástæðu mun jeg svara færra en jeg annars hefði gert.

Jeg vil þá fyrst minnast á þá meginröksemd, sem hæstv. forsrh. greip til að svara orðum mínum. Hún minnir mig á söguna um það, þegar Gissur jarl flýði undan Áverjum og kallaði til Klængs bróður síns í Bræðratungu: „Þeir elta mig nú mágar þínir. Lát upp kirkjuna skjótt“

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að þetta væri verk hins fyrv. atvrh., og sæti því illa á mjer að kasta hnútum að honum. Getur verið, að þessi kirkjugrið hæstv. forsrh. reynist honum ekki eins trygg og Gissuri reyndust sín forðum. Sannleikurinn er sá, að hæstv. fyrv. atvrh. var ekki einn í ráðum. Hæstv. fyrv. forsrh. (SE) hefir tjáð mjer, að þessir liðir væru að mestu leyti sín verk. Þar af leiðandi verður þetta hæstv. forsrh. (JM) ljelegt til varnar. Þar sem hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur, verð jeg að sleppa fleiri athugasemdum.

Það voru þung orð, sem hæstv. fjrh. (JÞ) ljet falla í garð Búnaðarfjelags Íslands og um núverandi stjórn þess fjelags. Hann þurfti ekki að beina þeim orðum til hv. frsm. fjvn.; hann mátti líta nær sjer. Við hlið hans situr maður úr stjórn þessa fjelags, hæstv. atvrh. (MG), svo þau hörðu ummæli um breytta stjórnarhætti og óráðsframkvæmdir snerta því fyrst og fremst sessunaut hans. Hann er eini þingmaðurinn, sem á sæti í stjórn Búnaðarfjelags Íslands, og jeg treysti því, að hann láti ekki þessi öfgaorð hæstv. fjrh. standa ómótmælt. Þetta tek jeg skýrt fram. (Atvrh. MG: Jeg ræð því sjálfur, hverju jeg svara). Þetta er aðeins ósk mín; vitanlega hefi jeg ekkert yfir hæstv. atvrh. að segja.

Þá verð jeg að víkja nokkrum orðum að háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Jeg hefi ritað hjá mjer orð hans um það, að Búnaðarfjelagið væri í miklum skuldum, en ætti engan sjóð. Jeg get upplýst það, að á síðasta búnaðarþingi var lögfest að efla fastan sjóð Búnaðarfjelagsins talsvert mikið.

Jeg vil enn víkja örfáum orðum að þrem þingmönnum, sjerstaklega hv. þm. V.-Sk. (JK). Hann var að bera saman störf mín og ýmsra annara í þágu búnaðarins; en jeg á auðvitað ekki að dæma um það. Hann mintist einnig á það, hve nauðsynlegt væri, að góðir og vandaðir menn einir fengjust við blaðamensku. Lá ótvírætt í orðum hv. þm., að ekki sæjust miklar framfarir í þessum dygðum hjá undirrituðum. Um það dæmi jeg ekki heldur, en vona aðeins, að þegar hv. þm. hefir haft þessháttar störf á hendi eins lengi og jeg hefi nú haft, verði betri dómur kveðinn upp um hann en hann hefir nú látið falla um mig.

Hv. þm. Barð. (HK) og hv. þm. Ak. (BL) voru að tala um sníkjuhugsunarhátt og smásálarskap hjá bændum. Það verður að athugast, að atvinnuvegi bænda er þann veg farið, að þeir þurfa að gæta hvers einasta eyris. Afkoma búskaparins er svo erfið. Þetta hefir bæði sína erfiðu hlið og einnig hollu hlið. Í þessum atvinnuvegi venjast menn á sparnað og hófsemi.

Hv. þm. Ak. þarf jeg litlu að svara sjerstaklega. Hann virtist sakna þess mjög, að hann hefði ekki fengið þakklæti ,,Tímans“ undanfarið, en hinsvegar ljet hann í ljós gleði sína yfir þakklæti úr þeirri átt nú. Síðasta ræða hv. þm. Ak. virtist mjer frekar vera dágóð prjedikun til hv. þingmanna fyrir skort á ættjarðarást. Komst hann að þeirri niðurstöðu, að honum myndi takast að breyta hugsunarhætti þingmanna, og óska jeg honum til hamingju með það. (BL: Jeg sagði, að mjer myndi ekki takast það!).