01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

1. mál, fjárlög 1925

Ágúst Flygenring:

Jeg vildi aðeins bæta nokkrum orðum við það, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði um styrkinn til Hvalfjarðarbátsins. Jeg vildi beina þeim tilmælum til hæstv. atvinnumálaráðherra, að hann athugaði það mál. Enginn akvegur er til fram með firðinum eða í nágrenni hans, og því er hin mesta nauðsyn á að veita nokkurn styrk til aðdrátta á sjó, og vonast jeg til, að honum verði ekki gleymt í þetta skifti. Þetta er ekki nema hverfandi lítill hluti hvort sem er af þeirri upphæð, sem varið er í þessu skyni. Annars verð jeg að segja það, að mjer finst sú upphæð, er meiri hluti gerir ráð fyrir í þessum tilgangi, 65 þús. kr., alt of lítil. Hygg jeg, að þetta verði til þess, að sumar nauðsynlegar ferðir leggist niður með öllu, enda er þetta í samræmi við þá reglu, er nú virðist ríkjandi, að klippa svo mikið af öllum styrkveitingum, að þær koma ekki að neinu gagni. Má t. d. nefna Flensborgarskólann því til sönnunar, og að vísu fleiri skóla. Jeg þekki engan mann, er getur eða vill gefa þær 3000 kr., er vantar til að skólanum verði haldið uppi fyrir almenning eins og verið hefir. Svipuð viska kemur fram í því að lækka styrkinn til verslunarskólans niður í 3000 kr. Sú fjárveiting er einskisvirði. Engar fjárveitingar eru miklu betri en slíkar. Það, sem mestu máli skiftir, er að sá styrkur, sem veittur er, sje þó eigi svo lítill, að hann komi ekki að gagni.