01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

1. mál, fjárlög 1925

Halldór Stefánsson:

Jeg skal ekki blanda mjer inn í þær deilur, sem þegar hafa orðið hjer í þessari hv. deild, en aðeins minnast á eitt atriði, sem kom fram í ræðu hæstv. fjrh. (JÞ) og menn voru að varpa á milli sín, sem sje hverjum um væri að kenna það fjármálaástand, sem nú væri; um það voru vitanlega mjög deildar skoðanir. Hæstv. ráðherra vildi minst áfellast stjórnina fyrir það, þingið meira, en rakti svo orsakirnar til kjósendanna, því að þeir kysu þingmennina. Þessi skoðun er ekki ný, og hafa margir haldið henni fram áður, en eigi að síður er hún mjög athugaverð. Það eru að mestu leyti orðin tóm, að þingið sje spegill kjósendanna eða kjósendaviljans. Umboð þjóðfulltrúanna eru svo ólík venjulegum umboðum. Fyrst og fremst eru fulltrúarnir ekki bundnir við vilja kjósendanna, er þeir koma á þing, heldur sína eigin sannfæringu. Í öðru lagi fara þingmenn oft öðruvísi með umboð sitt heldur en ætlast hefir verið til eða þeir hafa lofað, og í mörgum tilfellum ganga gerðir þingsins á móti almennum vilja kjósenda, enda koma mörg mál fyrir þingið, sem kjósendur hafa ekkert vitað um, og því síður í hvaða formi þau loks eru afgreidd. Í þriðja lagi er það aðeins meiri hl., sem ræður úrslitum bæði við alþingiskosningar og í þinginu, og hann er oft lítill. Loks eru þingmenn ábyrgðarlausir gagnvart kjósendum og umboð þeirra óafturkallanlegt kjörtímabilið. Þegar nú umboð fulltrúans er þannig vaxið, er ekki hægt að varpa sökinni á kjósendur. Hið rjetta mun vera, að sökin er hjá öllum aðiljum nokkuð, og þó mest hjá þinginu. Ef þörf væri bráðra aðgerða til fjárhagsvarnar eða fjárhagsbóta, þá væri seint að bera það undir kjósendur. Það væri ekki hægt fyr en við kosningar, og þó að það væri gert, þá er ekki við því að búast eftir atvikum, að þeir hafi jafngott yfirlit alment yfir fjárhag ríkisins eins og þingmenn. Enda er sú málfærsla, sem oft er höfð við kjósendur, þess eðlis, að þeir fá ekki rjettar hugmyndir um málin. Það væri því seinfært og tvísýnt að leita til kjósenda um fjárhagsumbætur, ef bráðra aðgerða þyrfti með. Þingið og stjórnin hafa þau tök og skyldur, sem til bráðra bóta geta komið.

Jeg ætla þá næst að víkja að þeim brtt., sem jeg er að einhverju leyti riðinn við eða er aðalflutningsmaður að. Jeg ætla þó áður að minnast á eitt atriði. Það var við 2. umr. þessa máls, að mjer skildist á hv. form. fjvn., að hv. nefnd ætlaðist til þess, að af styrk þeim, sem veittur er til læknisvitjana í sveitum, þar sem erfitt er um læknissókn, væru ætlaðar 1500 kr., hlutfallslega við þá upphæð, sem áður var veitt í sama skyni, til nokkurra hreppa í Hróarstunguhjeraði til þess að ráða sjerstakan lækni, ef til kæmi. Benti jeg á, að af orðalagi athugasemdarinnar yrði þetta varla skilið þannig, og bjóst jeg við, að hv. nefnd mundi breyta orðalaginu þannig, að það mætti skiljast svo. Mundi jeg láta mjer nægja yfirlýsing hæstv. stjórnar um það, að hún skilji þetta á þann veg, en að öðrum kosti vænti jeg þess, að hv. nefnd lagfæri þetta.

Þá vildi jeg leyfa mjer að minnast á einstakar brtt. Það er þá fyrst 25. brtt., við 15. gr. 14. lið a. í fjárlagafrv. Við hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) höfum, eins og einhver þm. komst að orði, gerst svo djarfir að leggja til, að þessi liður yrði feldur niður. Jeg fyrir mitt leyti áleit þetta ekki neina dirfsku. Við 2. umr. var upphæðin færð niður, og ályktaði jeg af því, að það væri ekki fjarri ýmsum hv. þingdeildarmönnum að líta svo á, að til mála gæti komið að láta þennan styrk falla alveg niður. Við flm. teljum, að fjárveiting þessi sje ekki einungis óþörf, heldur og jafnvel skaðleg. Styrkurinn er bútaður milli margra manna, sem eitthvað fást við skáldskap og listir, og má segja það um langflesta þeirra, að það er alger óvissa um hæfileika þeirra í þá átt. Þessi styrkur getur orðið til þess, að þeir menn, sem hans njóta og hafa ekki hæfileika á þessu sviði, fái rangar hugmyndir um sjálfa sig og hæfileika sína og hverfi frá störfum á öðrum sviðum, sem þeir væru hæfari til og þeim og öðrum gagnlegri. Afburðahæfileikar í þessa átt verða ekki keyptir fyrir fje, en hinsvegar er engin hætta á því, að hæfileikarnir, sjeu þeir fyrir hendi, segi ekki til sín. Miðlungsskáldskapur og listir og það, sem þar er fyrir neðan, hafa ekkert gildi, en hefir hinsvegar þann ókost, að það flýtur yfir þjóðina í stríðum straumum og spillir listasmekk hennar. Það flýtur yfir þjóðina fjöldi af ljóðabókum og sögum, sem segja má um, að ekki hafi meira gildi en ein vel kveðin alþýðuvísa eða vel fundið orðtak. Teljum við því forsvaranlegt að fella styrkinn niður, enda mun það best fyrir mennina sjálfa. Þá vil jeg minnast á rithöfundastyrkinn til tveggja manna í 18. gr. fjárlaganna. Mjer hefir verið bent á það, að ekki mundi viðeigandi að fella niður annan af þessum styrkjum. En jeg hafði aðeins fyrir mjer fyrirsögn styrkveitingarinnar. Af henni er ekki hægt að ráða annað en að full heimild sje til að fella þessa styrki niður, og jeg finn því ekki ástæðu til að taka aftur till. Annars er hjer um tvo viðurkenda menn að ræða, sem telja má vel færa á þessu sviði, og munu þeir ekki vera styrks þurfar. Er því vafasamt, að þeim sje greiði gerður með því að setja þá á almenna þjóðarframfærslu. Jeg lít því svo á, að þeim sje e. t. v. enginn óleikur gerður, þó að styrkurinn sje feldur niður.

Þá er það aths. við 18. gr. II. Þar er löng röð af nöfnum og tölum. Hefði jeg — eins og sakir standa — talið rjett að fella niður alla summuna. Fjárupphæðirnar nema nær 41 þús. kr. og með dýrtíðaruppbót rúmlega 61 þús. kr. Ástæður þær, sem jeg hefi fyrir því að fella þetta niður, eru aðallega tvær. Er önnur sú, að með þessu er gerður misrjettur milli þjóðfjelagsþegnanna, og tel jeg ekki, að nein forrjettindi eigi að eiga sjer stað þar sem svo verður að líta á, sem öll þörf störf sjeu í sjálfu sjer jafnnauðsynleg og beri að viðurkenna jafnt. Hin ástæðan er sú, að það er engin vissa fyrir því, að menn þeir, sem styrksins njóta, sjeu hans þurfandi. En af því að jeg býst ekki við, að hv. deild fáist til að fella niður allar þessar upphæðir, þar sem bæði við fyrri umr. þessa máls og einnig nú hafa menn verið að bæta mönnum og tölum við þennan lið, þá vil jeg, þrátt fyrir það, hvernig jeg lít á þetta atriði, ekki leggja til, að alt verði felt niður, heldur aðeins þessir tveir rithöfundar. En þó að ekki verði alt felt niður, þá tel jeg rjett, að ekki verði greidd dýrtíðaruppbót af þessum styrkjum, enda ber engin lagaskylda til þess. Nú, þegar þjóðin verður að draga inn seglin um allar framkvæmdir, þá virðist ekki nema sanngjarnt að krefjast þess af einstaklingunum, að þeir sýni af sjer nokkra hófsemi. Ef þessi till. mín verður samþykt, þá sparar hún 20 þús. kr., en sparnaðurinn af öllum till. mínum nemur um 36 þús. kr., eða nálega 1/3 á móts við allar hækkunartillögur annara háttv. þm. við þessa umræðu fjárlaganna. Jeg vil svo leyfa mjer að biðja um nafnakall um till. mínar, þegar þar að kemur. Jeg mun svo ekki að svo stöddu minnast á fleiri till., sem jeg á þátt í, nje till. annara hv. þm. Mun jeg við atkvæðagreiðsluna sýna afstöðu mína til þeirra. Vil jeg svo enda mál mitt með þeirri von, að þegar verið er að auka tekjur með því að íþyngja þjóðinni með þungum, auknum skattabyrðum, þá gleymi þm. ekki að gæta allrar varúðar um það, hvernig þeim tekjum er varið.