07.03.1924
Efri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (3164)

64. mál, skrifstofur landsins í Reykjavík

Björn Kristjánsson:

Jeg skal geta þess, viðvíkjandi brunahættunni, að öll veðdeildarskjöl voru geymd þar sem flest var úr trje alt í kring, þegar Landsbankinn brann, og var því sama og um timburhús væri að ræða þótt bankinn væri með steinveggjum, því að loftið og alt þakið var úr timbri, sem brann yfir skápnum. Og voru skjöl þessi óskemd. Annars má alveg eins vel geyma slíkt í timburhúsi, ef notaður er traustur múrklefi og skápur með góðri járnhurð. Og mjer er kunnugt um, að sparisjóðurinn á Ísafirði var í timburhúsi, í húsi Þorvalds læknis, en hann hafði góðan múrskáp, og það á líka altaf að geta dugað. Brunahættan virðist því ekki vera stórt atriði, þótt fjármunir sjeu geymdir í timburhúsi, ef þeir eru geymdir í vel eldtryggum skáp.