31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hafði orð á því við fyrri hluta þessarar uniræðu, að mjer þætti hv. fjvn. ganga fulllangt í útgjaldatill. Jeg ræddi ekki svo mjög um þetta þá, af því mjer þótti það koma minna fram í fyrri hluta útgjaldabálksins, sem þá var til umræðu, heldur en þeim síðari. Nú liggja fyrir hækkunartill. frá nefndinni í síðari kaflanum, sem nema kringum 200 þús. kr. Verð jeg að segja það afdráttarlaust, að þar sem þetta er svo að segja fyrsta sporið í meðferð fjárlaganna á þessu þingi, þá þykir mjer nefndin hafa verið alt of stórtæk í hækkun útgjalda. Jeg ætla ekki að ræða mikð um einstakar till. hennar. En mjer sýnist svo um margar þeirra, að þær hefðu eins vel getað beðið, eða farið skemra, það sem það er svo margt annað nauðsynlegt, sem við verðum nú að sætta okkur við að láta bíða meðan verið er að rjetta nokkuð við fjárhaginn.

Það hafa nú 2 hv. þm. vikið að því, að útlitið væri svo gott framundan, að óhætt væri að fara lengra í hækkun útgjaldanna fyrir árið 1926 en hv. fjvn. hefir gert.

Fyrst var það samþm. minn, hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem lýsti þessu góða útliti sem sínu áliti, og verð jeg að játa, að mjer kom það raunar ekki á óvart, því að hann er kunnur að því, þessi hv. þm., að vera nokkuð bjartsýnn, en ekki að sama skapi glöggskygn, þegar um framtíðarfjárhagshorfur þjóðarinnar er að ræða. En hitt kom mjer undarlega fyrir sjónir og óvænt. þegar öldungur þessarar hv. deildar, hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), knjesetti þessi ummæli hv. samþm. míns, og taldi óhætt að lækka gjöldin um hálfa miljón króna.

Jeg get að vísu viðurkent. að það má gera sjer vonir um einhvern tekjuafgang á þessu ári, en hann fer þá til þess að greiða lausu skuldirnar, enda mun þess full þörf, ef ríkið á að geta hrist af sjer þennan skuldaklafa á 3 árum, eins og talað hefir verið um, en lausu skuldirnar eru 4 miljónir króna, og er ætlast til að þær dreifist á þessi þrjú ár. Mjer þykir ekki ósennilegt, að gera megi sjer vonir um, að árið 1925 geti lagt til 11/2 miljón króna upp í þessar skuldir, ef alt gengur jafnákjósanlega og horft hefir um stund.

Það er engin ástæða til að halda, að það komi betri eða hagstæðari ár en 1924. Dýrtíðaruppbót embættismanna er nú miklu hærri, en jeg veit ekki til, að gera megi ráð fyrir meiri tekjum en 1924. (JakM: Tekjuskatturinn verður hærri). Já, það má gera sjer vonir um, ,að hann verði eitthvað dálítið hærri, en sumar tekjur lækka líka og útgjöldin aukast á ýmsum sviðum.

En þó að horfi bjart fyrir þetta ár þá er alt annað og öðru máli að gegna um 1926. Um það ár mega menn ekki vera alt of bjartsýnir. Við höfum ein og aðrir notið góðæris í fjármálunum. Almenn verðhækkun á afurðum okkar kemur okkur til góða vegna þess, að við seljum meira en við notum. En þegar það endar, verða snögg umskifti. Og nú er sjáanlegt, að verðhækkuninni er lokið, og því ekki von um, að þessi alda beri upp fjárhagslegt góðæri nema þetta ár.

Atvinnuvegunum er svo komið, að til kostnaður þeirra hefir aukist stórkostlega, og meira heldur en menn ef til vill grunar.

Jeg skal nefna eitt dæmi, kaupgjald einnar tegundar verkafólks — kvenfólks við fiskvinnu —; kaup þessa flokks vinnuþiggjenda verður 40% hærra í ár en í fyrra, þ. e. a. s., að við sama söluverði móti gulli þarf að láta 40% meira í vörum en í fyrra til greiðslu þessa kaups. Og sama sagan endurtekur sig á öðrum sviðum, — kaupgjald hefir alstaðar hækkað, og því sjáanlegt, að ekki líður á löngu, að framleiðslan hjer á landi komist í öngþveiti. Og þessar atvinnugreinar eru það veikburða, að þær finna kreppuna þegar á þessu ári, þótt ekki hafi það beinlínis áhrif á tekjur ríkissjóðs. En á næsta ári skýrist þetta alt betur; þá sjást vandkvæðin, framleiðslan minkar og tekjur ríkissjóðs rýrna til stórra muna.

Þess vegna vara jeg alla hv. þdm. við að byggja fjárhagsvonir ríkissjóðs 1926 og áfram við þá reynslu, sem árið 1924 hafði að færa.

Jeg gæti fært fram meiri líkur fyrir þessu áliti mínu, að ekki sje langt að bíða, að atvinnuvegir landsins komist í þessa kreppu, en hirði þó ekki um það að svo stöddu.

Af einstökum brtt. er það ein frá hv. fjvn., sem gefur mjer tilefni til að segja nokkur orð. Það er um húsaleigustyrk háskólastúdentum til handa, sem mun fram borin eftir bendingu frá mjer. Og ábending þessi miðaðist við það, að ríkissjóður legði ekki að þessu sinni fje til byggingar stúdentagarðsins, og heldur ekki á næsta ári. Enda tel jeg æskilegra, að byggingin bíði, uns úr raknar um fjárhag ríkisins, og að stúdentum sje bætt upp með húsaleigustyrk á meðan svo stendur.

Um launaviðbætur til kennara við stýrimannaskólann og vjelstjóraskólann sagði hv. frsm. (TrÞ), að ekkert hefði legið fyrir nefndinni. Þetta kannast jeg ekki við. Hv. fjvn. hafði þetta atriði til meðferðar í fjáraukalögum, og það fylgdi með frá mjer, að uppbót til þessara kennara yrði ekki greidd framvegis, nema hún yrði tekin upp í fjárlög. Þessi till. er í öndverðu sprottin hjer upp í þinginu og hefir komið fram í fjáraukalögum hvað eftir annað, en verður ekki tekin til greina. eða uppbót þessi greidd, ef jeg á að fara með þessi mál á næstunni. nema hún verði nú sett í fjárlögin.

Þá vildi jeg víkja að þeirri brtt. hv. fjvn. að bæta inn nýrri grein í fjárlögin. 25. gr. Mjer þykir það óþarfi og till. leiðinleg, ekki þó svo mjög vegna þess, sem hún fer fram á, heldur hins, að með henni er verið að rugla þeim reglum um niðurskipun útgjaldanna, er jeg var að lagfæra, svo að hver liður fengi að standa þar í fjárlögum, er hann ætti heima. Enda er ekki annað að sjá en til þessa sje seilst til að villa heimildir á fjárveitingum til tveggja skóla, er vitanlega eiga að standa í 14. gr. B. og hvergi annarsstaðar. Jeg vildi heldur láta styrk þennan koma fram sem beina fjárveitingu í fjárlögum heldur en að veita fyrst lán úr viðlagasjóði, gefa það svo upp og láta upphæðina hvergi koma fram í landsreikningnum. Mjer finst ekki, að mikinn kjark hefði þurft til að bera brtt. þessa fram við 14. gr. B., þar sem hún á heima. Vilji hv. fjvn. láta viðlagasjóð bera þessar byrðar. Þá er hægurinn hjá að taka upp tekjulið á móti um greiðslu úr viðlagasjóði. Þá sjást gjöldin bæði í landsreikningnum og fjárlögum, og það er rjetta leiðin.

Annars sje jeg ekki nein skynsamleg rök fyrir því að veita Hvítárbakkaskólanum uppgjöf á skuld. er ljettúðarlega og fyrirhyggjulítið var stofnað til á þeim árum, er fæstir gerðu sjer grein fyrir, hvaða gildi peningarnir höfðu.

Og svo er um fleiri brtt. hv. fjvn. að segja, að betur hefði á því farið, að skemra væri gengið. Og jeg endurtek það aftur, að jeg vil ekki prjóna nýrri grein inn í fjárlögin, til þess að leyna undir henni fjárveitingum, sem eiga að standa annarsstaðar.

Þetta síðasta á líka við athugasemd hv. fjvn um 17. gr., að stjórnin verji nokkru fje til handa Íslendingum erlendis til að rækja kristilega starfsemi í Kaupmannahöfn. Nál. sýnist skilja það á þennan veg, þó að í 17. gr. sje það orðað „til að bjarga nauðstöddum Íslendingum erlendis“. Sje það vilji hv. fjvn., að ríkissjóður greiði fje til þess að rækja kristilega starfsemi á meðal Íslendinga í Höfn. Þá átti styrkur þessi að standa í 14. gr. A. Að minsta kosti á hann ekki heima í 17. gr.

Þá ætla jeg ekki stöðu minnar vegna að segja fleira um þessar brtt., en nota þingmannsrjett minn til þess að minnast á eina brtt. hv. fjvn. Það er 43. brtt. í röðinni á þskj. 195, um styrk handa Þórbergi Þórðarsyni til þess að safna orðum úr alþýðumáli. Jeg átti minn þátt í því, að ekki var tekinn upp í stjfrv. styrkur til þessa manns. Það var þó ekki af sparnaðarástæðum gert, heldur vegna þeirrar þekkingar, er jeg hefi öðlast um starfsemi þessa manns. Af þeirri litlu þekkingu álít jeg hreint og heint orðasöfnun Þórbergs Þórðarsonar skaðlega, og hann alls ekki slíku starfi vaxinn. Jeg hefi sjeð sýnishorn af þessari orðasöfnun, er kom út á prenti í einu vikublaðinu, en er nú hætt að birtast, sem betur fer. Og jeg hneykslaðist á því, hvernig þessi maður gat farið með það, sem mjer þykir vænst um og helgast er í tilfinningum mínum, en það er móðurmálið okkar. Upp í þessi sýnishorn voru tekin latmæli og bögumæli, sem eru á vörum lítt mentaðra manna, eða eiga rót sína að rekja til talfæragalla einstakra manna, og þeim raðað við hliðina á sígildum íslenskum orðum, sem of fátt var þó af. Smekkleysið og sparðatínsla safnandans var svo langsamlega yfirgnæfandi.

Jeg játa það, að jeg er svo mikill íhaldsmaður á okkar fornu tungu, að jeg þoli ekki að horfa upp á það, að henni sje misboðið á slíkan hátt. Þess vegna er jeg því mótfallinn, og það mjög mótfallinn, að ríkið styrki þann mann til orðasöfnunar, sem ekki skilur starf sitt betur en þessi maður hefir gert.