31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

1. mál, fjárlög 1926

Björn Líndal:

Það eru þrjár brtt. við þennan kafla fjárlagafrv., sem jeg er viðriðinn, og vildi jeg fara um þær nokkrum orðum, einkum eina þeirra, sem fer fram á 3000 kr. aukastyrk til amtsbókasafnsins á Akureyri. Þessi till. er flutt samkvæmt tilmælum stjórnar safnsins.

Jeg skal strax taka það fram, að mjer finst framlag til bókasafna tilfinnanlega skorið við neglur hjer á Alþingi, því að nytsemi þeirra er svo mikil, að þau eru meiri styrks makleg en þau hafa fengið hingað til.

Mjer er persónulega kunnugt, að bókasafn Þingeyinga á Húsavík hefir haft mjög mentandi áhrif á íbúa nærliggjandi hjeraða, enda hefir þar tekist óvenjuvel bæði val bóka og forstaða safnsins að öðru leyti.

Því miður er ekki hægt að segja hið sama um amtsbókasafnið á Akureyri.

Forstaða þess hefir oft verið fengin hinum og þessum hlaupamönnum, og þeim ekki altaf sem hæfustum til starfans, og bókaval hefir ekki altaf tekist eins vel og skyldi, sakir þess að bókavörðurinn hefir ekki borið nægilegt skyn á slíka hluti.

Nú er farið fram á að auka styrkinn til þessa bókasafns, til þess að fastara skipulagi og betri reglu verði komið á það.

En jafnframt liggur á bak við að hjálpa ungu og efnilegu skáldi, sem þegar nýtur mikilla vinsælda með þjóðinni.

Hann hefir óskað eftir því að fá stöðu sem forstöðumaður safnsins, og er hann að því er jeg best veit, mjög vel til þess fallinn.

Jeg álít að vel fari á því að slá hje tvær flugur í einu höggi: styrkja ungan og efnilegan listamann og forða jafnframt safninu frá frekari vanrækslu er orðin er.

Jeg held, að þetta sje einmitt hin rjetta leið til að styrkja listamenn okkar, að hjálpa þeim til að hjálpa sjer sjálfum með því að fá þeim í hendur einhver störf, sem þeim sje hent að gegna, en sem þó krefjast ekki meiri tíma og krafta en svo, að þeir geti jafnframt gefið sig að listiðkunum sínum.

En bókasafnið er svo fátækt, að stjórn þess treystir sjer ekki til að leggja meira en 800 kr. á ári til launa handa bóka verði, og hefir því oft orðið að grípa þann fyrsta, sem boðist hefir. Er og skiljanlegt, að menn geti ekki lagt á sig mikla vinnu fyrir svo lága þóknun, enda hefir safnið ekki verið opið nema skamma stund 3 daga vikunnar undanfarið. Nú er meiningin að breyta þessu þannig, að það verði opið 6 daga í viku og um lengri tíma daglega en verið hefir.

Auk þess hafa menn í hyggju að stækka og bæta húsakynni safnsins, og hefir bæjarstjórn Akureyrar þegar samþykt þá ráðagerð.

Nú er það svo, að bókasafnsnefndin telur sjer ekki fært að hækka laun bóka varðar nema upp í 1000 kr., þó að styrkur fengist frá bæ og sýslu, því að þörfin er einnig mikil fyrir peninga til annara umbóta safnsins.

Fyrir því er nú farið fram á þetta og jeg bið hv. þm. að athuga það vel hvort ekki muni vera miklu hyggilegra að styrkja ung og efnileg skáld á þennan hátt heldur en að veita þeim skáldalaun — kaupa þá til þess að gera ekkert annað en yrkja.

Þá kemur brtt. 32, þar sem farið er fram á styrk til Stefáns frá Hvítadal. Það er ekki ætlun mín að fara í neinn mannjöfnuð, en jeg tel naumast sanngjarnt að styrkja Davíð Stefánsson svo, að Stefáni sje algerlega gleymt. Stefán liggur nú í Vífilsstaðahæli, þungt haldinn og á við þröngan hag að búa.

Um 44. brtt. er það að segja, að þar á svo mæt kona og merkileg hlut að máli, að um þennan litla styrk ætti ekki að þurfa að eyða mörgum orðum.