12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vona, að umr. fari nú heldur að styttast úr þessu. Það er ekki margt, sem jeg þarf að segja að þessu sinni, en þó vil jeg svara háttv. samþm. mínum, 3. þm. Reykv. (JakM), því, að því miður er það allvíða, þegar skatturinn er nú á lagður á öðrum ársfjórðungi eftir áramót, að enginn peningur er til upp í hann.

Mjer þætti vænt um, ef háttv. fjhn., sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar, vildi grenslast eftir því hjer í bönkunum, hversu mörg þau togarafjelög eru, sem eiga inni handbært fje í bönkunum núna eftir áramótin. Nei, þau eru ekki mörg, ef nokkur eru; öll voru þau svo sokkin í skuldir, að ekkert er eftir, allur stórgróði veltiársins farinn í skuldagreiðslur. (TrÞ: Og í ný togarakaup). Því er alls ekki svo farið; fæst fjelögin eru svo stæð, að þau hafi getað ráðist í ný skipakaup.

Það er í ýmsum löndum erlendis sú grundvallarregla í þessum málum, að skattur er ekki greiddur af ágóða fyr en tap hefir verið greitt. Þetta er heilbrigð regla og rjettlát í framkvæmdinni. Hjer við bætist, að það getur ekki álitist rjett að tvískatta sama arðinn á sama árinu, en hjá hlutafjelögum er tvískattað meginið af útborguðum arði. Því meiri ástæða er þá til þess að nálgast þá reglu, sem skattleggur einungis raunverulegan arð. en ekki það, sem fer í greiðslur á tapi.

Jeg leyfi mjer svo að síðustu að vænta þess, að þetta frv. fái velvildarfulla athugun í hv. fjhn., út frá þessu sjónarmiði, sem jeg nú benti á.