21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) vildi snúa öllu mínu máli í villu, eins og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) komst að orði, og nú hefir hann á móti notkun meðaltalsreglunnar vegna þess, að hún sje hlutafjelögunum óhagstæð, en hv samnefndarmenn hans hafa á móti reglunni vegna þess, að hún sje ríkissjóði óhagstæð. Þegar því hv. meiri hl. nefndarinnar er þannig tvískiftur og sýnist sitt hvorum, hv. 3. þm. Reykv. og samnefndarmönnum hans, þá er það líklegast, að hið sanna í málinu sje þar mitt á milli. Meðaltalsreglan mun því gera báðum aðiljum nokkur skil, því nefndin hefir einmitt klofnað um hana og nú fer hver nefndarhlutinn með sínar öfgar. Hv. 3. þm. Reykv. segir, að ekki sje rjett að reikna skattinn eftir meðaltalsreglunni, vegna þess að það valdi tjóni mörgum hlutafjelögum. Þetta getur átt sjer stað, ef um nýtt fyrirtæki er að ræða, sem einhverra hluta vegna hefir haft hæstar tekjur fyrsta starfsárið, en lægri að mun hin tvö árin, sem skatturinn er reiknaður af. Í slíku tilfelli getur tekjuhæð fyrsta ársins hækkað skattinn af hinum árunum, sem hafa verið tekjurýrari, en þetta er þó ekki annað en trygging, sem fjelagið verður að greiða gegn of háum skatti ella, ef meðaltalsreglan væri ekki notuð. Þetta á sjer og stað um önnur fjelög, ef slíkur mismunur hefir verið á tekjum undanfarinna ára, en þetta er þó álitið að borgi sig vel af þeim, sem við þetta eiga að búa; þeir telja það til góðs að fá þessa reglu innleidda í löggjöfina. Það má að vísu setja upp þannig löguð dæmi, að tap fjelaganna á þessu fyrirkomulagi sje hreinn gróði fyrir ríkissjóð, en dæmi hv. 3. þm. Reykv. verður þrátt fyrir það rangt. Það getur ekki átt sjer stað, að breyting þessi komi ljettar niður á efnuðu fjelögunum, en harðar á hinum miður efnuðu. Reglan þyngir aðeins á þeim fjelögum, sem hafa haft hærri tekjur þriðja árið áður en reglunni var fyrst beitt, en aftur á móti verður skatturinn ljettari á þeim fjelögum, sem hafa haft lægri tekjur fyrsta árið en á hinum tveimur árunum þar á eftir. Hv. 3. þm. Reykv. segir, að reglan leiði til þess, að skatturinn verði hár á þeim árum, sem hafi fært fjelögunum tap í stað gróða. Þetta verður ekkert fremur en nú á sjer stað; skatturinn er greiddur eftir á af tekjum síðastliðna ársins, án tillits til þess, þó að tap verði það árið, sem skatturinn fellur í gjalddaga. Meðaltalsreglan breytir þessu ekki, en hún mildar þetta dálítið, með því að skatturinn eftir eitt einstakt gróðaár verður ekki eins hár, þótt greiðsla hans lendi á tapári, eins og samkvæmt þeim lögum, sem enn gilda um þetta.

Um ákvæði 2. gr. frv. ætla jeg ekki að ræða sjerstaklega, en jeg viðurkenni, að það er leitt að þurfa að leggja ákvörðunarvald það, sem þar er gert ráð fyrir, undir fjármálaráðuneytið. Það þyrfti að vera til í Reykjavík einhver stofnun, sem hefði æðsta úrskurðarvald í þeim málum, sem rísa út af tekju- og eignarskatti, og ætti sú stofnun að hafa einræði um allar slíkar ívilnanir, sem hjer er átt við. Erlendis eru slíkar stofnanir víða, sem hafa æðsta úrskurðarvald í þessum skattamálum. Að misrjetti geti stafað af þessum lögum, því neita jeg alls ekki, enda er algerlega ómögulegt að setja svo lög um tekju- og eignarskatt, að hvergi komi þau hart niður eða að mönnum finnist lögin ekki vera ranglát. Tilbreytni lífsins er svo mikil, að ókleift er að gera við öllu slíku, en tilgangur löggjafarvaldsins er að taka fyrir þau tilfelli, sem ranglátust eru talin og sem mestu máli skifta, hvort heldur það er ríkið eða einstakir menn, sem eiga í hlut. Þetta gerir meðaltalsreglan að mörgu leyti, en það er langt frá mjer að halda því fram, að hún girði fyrir alt misrjetti. Hv. 3. þm. Reykv. taldi það harðleikni, að maður, sem hefði gengið í ábyrgð fyrir annan mann og orðið að greiða fje þess vegna, megi ekki draga slíkar greiðslur. frá skattskyldum tekjum sínum; en þetta eru nú lög hjer, og eru allir menn jafnir í þessu atriði gagnvart þeim lögum. Að öðru leyti læt jeg mjer nægja gagnvart hv. 3. þm. Reykv. að vísa til þess, að báðir bankarnir hjer, sem eru þessum málum gagnkunnugir, telja nauðsynlegt að innleiða meðaltalsreglu þessa, og aðstandendur flestra hlutafjelaganna eru einnig á sama máli, þó að lækkun skattsins, sem af reglunni leiðir, skifti þau ekki svo miklu máli; en afkoma fjelaganna verður við þetta miklu stöðugri og ábyggilegri en ella, og því eru þau meðmælt meðaltalsreglunni.

Jeg hefi áður sýnt fram á, að það er betra fyrir ríkissjóð, að tekjur hans sjeu jafnar frá ári til árs, en hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vil jeg þó svara nokkrum orðum. Hann taldi tekjurýrnun ríkissjóðs af notkun meðaltalsreglunnar mundu þegar í stað nema mörgum hundruðum þúsunda króna. Um þetta veit hann ekkert, og jeg ekki heldur, en jeg segi honum, að verði þessari meðaltalsreglu ekki beitt nú, þarf einskis tekjuskatts að vænta í ríkissjóð á árinu 1926 frá útgerðarfjelögunum, vegna þess að hinn hái skattur, sem verður greiddur á þessu ári, verður dreginn frá næsta árs skattskyldum tekjum, og þarf þá vart að vænta mikils afgangs af þessa árs gróða. Það er búið að margsanna það með augljósum dæmum, að það, sem ríkissjóður missir við meðaltalsregluna í ár, fær hann að mestu leyti upp bætt á næstu tveim árum þar á eftir, og hv. 3. þm. Reykv. segir, að það náist jafnvel upp að öllu leyti.

Þá þarf jeg enn að víkja örfáum orðum að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), út af því, sem hann talaði eitthvað um kaupmannasamtök og stuðning ríkisstjórnarinnar við þau, og að einstakir kaupmenn væru að leitast við að ná undir sig allri tóbaksverslun landsins, er einkasalan yrði lögð niður. Mjer kom þetta allundarlega fyrir eyru, vegna þess að jeg þekki dæmi þess, að núverandi starfsmenn við einkasölu ríkisins hafa að undanförnu verið að leita fyrir sjer við viðskiftamenn einkasölunnar erlendis um föst viðskiftasambönd við sig persónulega, ef einkasalan yrði lögð niður. Jeg vona, að hv. 1. þm. S.-M. beri ekki á móti þessu, svo jeg þurfi ekki að lesa hjer upp brjef, er jeg hefi í höndum, sem upplýsir þetta. (KIJ: Þess þarf ekki; við þekkjum þetta brjef). Jeg er ekki viðriðinn neinn kaupmannafjelagsskap, og þarf því hv. 1. þm. S.-M. ekki að ætla mjer, að jeg fari að gera mjer tóbaksverslun að atvinnu framvegis. Hv. 1. þm. S.-M. bregður mjer um ofstuðning við hlutafjelögin hjer í bæ og í nágrenninu, og að jeg reki hjer í þinginu þeirra erindi, en hv. 3. þm. Reykv. dregur þetta þó í efa. Jeg kannast vel við það, að jeg vilji styðja þessi fyrirtæki, og þykist jeg geta rekið þeirra erindi með óskertum heiðri mínum sem þm., því jeg hefi einnig talað máli fleiri manna í þessari háttv. deild. Það er sem sje í fullu samræmi við stefnu Íhaldsflokksins þetta, fyrst að rjetta við fjárhag ríkisins eftir megni og þá næst að styðja og efla eftir föngum atvinnuvegina í landinu. Hv. 1. þm. S.-M. þarf ekki að ætla, að jeg beri kinnroða vegna þess, að jeg í dag hefi talað máli sjávarútvegsmanna, því í gær talaði jeg máli landbúnaðarins, sem jeg er og reiðubúinn til að gera aftur á morgun, enda hefir núverandi stjórn lagt þar meira fram og merkilegra til stuðnings landbúnaðinum og honum til viðreisnar en nokkur stjórn hefir gert nokkru öðru sinni hjer í þinginu, og það, sem jeg hefi lagt til að gert verði til að rjetta við landbúnaðinn í landinu, er miklu meira vert en alt það, sem gert hefir verið fyrir sjávarútveginn, og undanskil jeg þó ekki byggingu strandvarnaskipsins, sem er þó oft talið þann atvinnuveg einna mest varðandi. Jeg get einnig frætt hv. 1. þm. S.-M. um það, að Íhaldsflokkurinn á fleiri fylgismenn en útgerðarmennina; hann á líka traust fylgi þorra alls almennings úti um alt land. En þó að svo sje, mun Íhaldsflokkurinn aldrei taka upp til eftirbreytni framferði það, sem tíðkast hefir í öðrum stjórnmálaflokki í landinu, að kúga með meirihlutasamþyktum sína flokksmenn alla til að taka þátt í þeim kostnaði, er stafar af stjórnmálastarfsemi flokksins. (TrÞ: Hverjir eru það? — BL: Það vita víst allir, við hverja er átt. — TrÞ: Jeg skora á hæstv. ráðherra að tilgreina, við hvað hann á með þessum dylgjum. — BL: Samband íslenskra samvinnufjelaga t. d.). Jeg á við þá t. d., sem standa að blaði Framsóknarflokksins, „Tímanum“, og verða að bera það uppi fjárhagslega, hvort þeir vilja eða ekki.

Þegar hv. 1. þm. S.-M. er að tala um ofstuðning bankanna við útgerðarfjelögin, má þar sannast segja, að „sá höggur, er hlífa skyldi“, því það er fyrst á árunum 1922–23, sem það orkar tvímælis, hversu rjettmæt hafi verið, að bankarnir styrktu þessi fyrirtæki framvegis, og vilji hv. þm. víta þetta, á hann ekki að víta mig, en hann á aðganginn að fyrverandi stjórn fyrir þessar sakir. Síðan Íhaldsflokkurinn tók við stjórn landsins, hefir ekki annað verið gert en að grynna örlítið á skuldum þeim, sem safnast höfðu á næsta stjórnartímabili á undan. (KIJ: Frá næstu tímabilum; það er eldra en að alt stafi frá fyrv. stjórn). Það er eitt og sama samhangandi tímabil, sem jeg á við; fyrsta tapárið var 1921, og voru þó þessi fyrirtæki nokkurnveginn vel stæð þá í fyrstu. Sýnir það því mikið skilningsleysi að ámæla nokkurri stjórn fyrir að hafa haldið uppi þessum atvinnufyrirtækjum, sem öll afkoma landsmanna veltur svo mjög á, og þó að þetta komi mjer ekki svo mjög við, er mjer þó mjög ljúft að leiðrjetta þennan leiða misskilning hv. 1. þm. S.-M. Ef þessi fyrirtæki hefðu verið látin fara um koll á árunum 1922–23, mundu skipin hafa lent í höndum útlendinga, eins og þilskipin forðum, og þá væru það nú erlendir menn og stórgróðafjelög erlend, sem rökuðu hjer upp fje með fyrverandi farkostum landsmanna sjálfra.

Hv. 1. þm. S.-M. er ennþá að verja töfluútreikning sinn. Jeg hefi nú fengið vitnisburð þess manns, sem reikningsfróðastur á að vera hjer í deildinni, háttv. 3. þm. Reykv., og er hann þeirrar skoðunar að upphæð mín sje rjett, eða því sem næst, og læt jeg mjer því þann vitnisburð vel lynda og þrátta ekki frekar um þetta. Umræður hafa nú orðið æðilangar um þennan a.-lið, eða meðaltalsregluna, og mættu þær því taka enda. Um b.- og c.-liðina get jeg tekið undir með hv. 1. þm. S.-M., að þeir hafa minna verið ræddir, en í þeim felast aðalívilnanirnar til handa hlutafjelögunum, og hefir ekki orðið neinn ágreiningur um þær. Er jeg því þakklátur hv. meiri hl. nefndarinnar fyrir að hafa fallist á og vilja samþykkja þessa tvo liði, sem eru aðalatriðin gagnvart hlutafjelögunum.