21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Tryggvi Þórhallsson:

Íhaldsflokkurinn hefir kvartað um það undanfarið, að umr. væru gerðar hjer óþarflega langar. Mjer þótti því næsta kynlegt, að hæstv. fjrh. (JÞ) skyldi nú við þessa 2. umr. kasta svo hnútum í allar áttir sem hann gerði, og gera þar með sjerstaka tilraun til að lengja umræðurnar. En svo vel vill til, að hægt er að kasta þeim til hans aftur, og skal það þegar gert.

Hann byrjaði á að segja það, að Framsóknarflokkurinn kúgaði menn með meirihlutavaldi til að leggja fje til útgáfu „Tímans“. Þetta hefir nú áður verið túlkað svo í blöðum Íhaldsins, en sannleikurinn verið látinn liggja þar milli hluta, eins og oft endranær. Á Sambandsfundi síðastl. ár komu fram tvær till. um styrk til blaðaútgáfu þessarar. Önnur fór fram á 8000 kr. fastan styrk, en samkv. hinni skyldi Sambandsstjórnin ákveða fjárhæðina. Sú till. varð ofan á, og endanlega greiddu allir henni atkvæði, en enginn á móti. Slík var kúgunin! Nú hefir reyndin orðið sú, að minna en 8000 kr. hefir verið varið í þessu skyni. Þetta er sú kúgun, sem hæstv. fjrh. (JÞ) talaði um.

En jeg get minst á annað nýrra dæmi um kúgun. í gær kúgaði Íhaldsflokkurinn einn ráðherra sinn til að gera það, sem stríddi á móti hans betri vitund og hann vissi, að rangt var. Þessi hæstv. ráðh. varð áður frægur fyrir það að vera ekki dómsmálaráðherra, en enn frægari í gær fyrir að vera ekki fjármálaráðherra. Líklega hefði frægð hans að endemum orðið minst, ef hann hefði aldrei orðið atvinnumálaráðherra.

Hæstv. fjrh. sagði, að það væri á stefnuskrá Íhaldsflokksins að rjetta við fjárhag ríkissjóðs. Til þess að framfylgja þessari stefnu samþykti þessi viðreisnarflokkur í gær að fleygja burtu úr ríkissjóði milj. kr. árlega.

Í dag er annað bjargráð á seyði. Er það borið fram til stuðnings atvinnuvegunum, að því er fylgismenn þess segja. En jeg vildi benda hæstv. stjórn á það, að ef hún vildi styðja atvinnuvegina, ætti hún að gera það á þann hátt, að sá stuðningur kæmi sem Best og maklegast niður. Jeg á hjer við gengismálið og afskifti, eða öllu heldur afskiftaleysi, stjórnarinnar af því. Nú ber stjórnin fram frv. um það, að sú hætta geti vofað yfir, að enn haldist 10% verðtollur á afurðum bænda og sjávarútvegsmanna með örri gengishækkun. Hjer virðist hæstv. stjórn hafa brostið skilning á stuðningi við atvinnuvegina, hversu mjög sem hún þykist bera þá fyrir brjósti í þessu frv., er hjer liggur fyrir.

Hæstv. ráðherra (JÞ) gumaði af því, að hann hefði borið fram lögin um ræktunarsjóðinn. Mjer mun manna best kunnugt um, hvernig hann œtlaði að bera það frv. fram og hvað bæta þurfti. En hvað sem um það er, þá verð jeg að segja það, að ef svo heldur áfram í gengismálinu eins og síðan í fyrra, að íslenska krónan verði látin hækka svo gegndarlaust, — hvaða gagn er þá í að veita bændum lán, sem síðar verður að greiða með 133%? eða meira? Jeg sje því ekki, að mikil ástæða sje fyrir hæstv. fjrh. að guma af ræktunarsjóðnum, enda þótt hann ætti nú meiri þátt í honum en hann á, og hann er nálega enginn annar en að vinna því máli tjón, ef gagn hans fyrir landbúnaðinn verður eyðilagt með óstjórn á gengismálinu.