14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2313 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hafði ekki ætlað mjer að segja neitt við þessa umr.; taldi þess ekki mundu þurfa, með því að jeg hafði gert alveg fulla grein fyrir minni afstöðu í hv. Ed., og gerði ráð fyrir, að það mundi verða fult samkomulag um það að samþykkja frv. óbreytt eins og það kom frá þeirri háttv. deild. Jeg vil mæla með því, en jeg má til að segja fáein orð út af ummælum hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sem sýna það, því miður, að þessi hv. þm. (SvÓ), sem hefir haft þetta mál til meðferðar alt þingið, veit ekki enn, hvað hann hefir verið að gera alt þingið. Hv. þm. (SvÓ) talar um, að það tjón, sem landssjóður muni bíða af upptöku meðaltalsreglunnar, verði geysimikið; en þetta er algerður misskilningur hjá hv. þm. (SvÓ). Það kom raunar í ljós, sem jeg vissi og kom ekki á óvart, að það er mikil upphæð, sem færist frá yfirstandandi ári og yfir á 1926 og 1927, en um tjón af meðaltalsreglunni er ekki að ræða, sem nokkru nemi. Hv. Ed. vildi ekki fallast á að taka upp þessa reglu, og jeg gerði þar grein fyrir því, vegna hvers jeg teldi ekki næga ástæðu til, frá mínu sjónarmiði, að halda fast við hana. Þær ástæöur eru sem sje þær, að nú er útlit fyrir, að yfirstandandi ár verði gott fyrir atvinnureksturinn, og atvinnufyrirtækin geti því greitt þennan skatt, án þess að bíða skaða af því, en þetta varð ekki sjeð fyrir um áramót, og þetta styrkist við það, að einn hv. þm. í Ed., sem er bankastjóri í íslandsbanka og hefir ágætt tækifæri til að fylgjast vel með því, hvort þessi fjelög geti greitt skatta sína, hefir með till. sínum látið í ljós, að ekki mundi hljótast tjón af því, þó að þau þurfi að gera það, sem jeg býst við, að sá hv. þm. byggi á viðunanlegum horfum um tekjur yfirstandandi árs. En hvað snertir tekjutap ríkissjóðs, þá er jeg sannfærður um það, að sú breyting, sem gerð var á frv. í hv. Ed., muni heldur rýra tekjur ríkissjóðs. Þessi hækkun á þeirri skattfrjálsu upphæð, sem leggja má í varasjóð, muni hafa dálítið meiri tekjumissi í för með sjer fyrir ríkissjóð heldur en upptaka meðaltalsreglunnar, en þó ekki svo mikinn, að neinu máli skifti. Það er þess vegna alveg rangt hjá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að jeg hafi ekki sjeð fyrir afleiðingarnar af meðaltalsreglunni fyrri en nú á síðustu stundu, enda hefi jeg aldrei gefið í skyn, að jeg væri í neinum vafa um það; þær eru sem sje jöfn skattgjöld ár frá ári, í stað þess, að núgildandi skattaregla gerir skattinn misjafnan ár frá ári, sjerstaklega af þessum fyrirtækjum. Hin gerir skattinn jafnan. Næsta ár má eftir gildandi reglum ekki vænta mikils skatts frá þessum fyrirtækjum, vegna þess hve mikið kemur til frádráttar, þar sem er hið mikla skattgjald, sem greitt verður á yfirstandandi ári. Jeg hefi ekkert misskilið, en það, sem ekki var hægt að leggja fram í apríl, þab voru tölur viðvíkjandi tekjum fyrir árið 1924, en hinsvegar var ekkert í þeim, sem mjer kom á óvart.