14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2320 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg vildi aðeins segja örfá orð út af svari hæstv. fjrh. (JÞ) til mín áðan, en jeg hefi enga löngun til þess að vekja upp langar deilur eða umr. Hæstv. fjrh. ljet svo ummælt, að honum hefði ekki verið kunnugt um framtal útgerðarfjelaganna, þegar frv. var hjer áður til meðferðar í deildinni. Það má vel vera; jeg ætla að

taka það trúanlegt, og það afsakar þá afstöðu, sem hæstv. fjrh. tók til málsins, ef honum var það ekki kunnugt, því að ella verður hún að álítast að öllu leyti óafsakanleg. Þá heldur hæstv. fjrh. því fram, eins og fyr, að sá halli, sem ríkissjóður bíður, ef meðaltalsreglan er tekin upp, mundi ekki vera neitt teljandi, og vjefengir hann þannig þá útreikninga, sem gerðir voru í hv. Ed. og sýndir eru á þskj. 524. Út af þessu skal jeg benda hæstv. ráðherra (JÞ) á töfluna, sem fylgir áliti hv. Ed., sem sýnir 628 þús. kr. tekjurýrnun á þessu ári af meðaltalsreglunni, en 6% vextir einir til næsta árs af 628 þús. kr. nema 37680 kr., sem ekki verður neitað, að týnist ríkissjóði, en samkvæmt meðaltalsreglunni verður 1/3 af þeim skattskyldu tekjum að geymast til 3. ársins.